Latifi neyddist til að hætta keppni á síðustu hringjum keppninnar eftir að hafa klesst á vegg. Í kjölfarið var öryggisbíll kallaður út og það átti eftir að skipta sköpum í því að heimsmeistaratitillinn lenti hjá Max Verstappen, ökumanni Red Bull Racing en ekki Sir Lewis Hamilton, ökumanni Mercedes.

Margir vilja kenna Latifi um að heimsmeistaratitillinn skyldi hafa lent hjá Verstappen en ekki Hamilton og Latifi hefur fengið aragrúa af hatursfullum skilaboðum síðan þá.

,,Ég hef vísvitandi haldið mig frá samfélagsmiðlum á meðan rykið sest frá atvikinu sem átti sér stað í síðustu keppni tímabilsins," skrifaði Latifi í yfirlýsingu sem birtist á samfélagsmiðlum.

,,Mikið hefur verið gert úr aðstæðunum sem sköpuðust eftir að ég neyddist til að hætta keppni í Abu Dhabi. Ég hef fengið þúsundir skilaboða á samfélagsmiðlum. Mörg þeirra hafa verið stuðningsyfirlýsingar en ég hef fengið mikið af hatursfullum skilaboðum."

Latifi segist hafa reynt að finna bestu leiðina til þess að takast á við þessar aðstæður.

,,Ef við förum aftur til keppnishelgarinnar þá vissi ég hvað myndi gerast á samfélagsmiðlum um leið og keppni lauk. Sú staðreynd að á einum tímapunkti taldi ég það réttast að Instagram og Twitter í símanum mínum í nokkra dafa segir sitthvað um það hversu grimmir netheimar geta verið."

Hann segir hatursfullu skilaboðin sem honum voru send ekki hafa komið sér á óvart. ,,Þetta er bara raunveruleikinn eins og hann birtist okkur í dag. Ég þekki það hvernig talað er illa um mann í netheimum og ég tel að flest allir íþróttamenn sem keppa á alþjóðagrundvelli þekki það líka."

Hann segir það aðeins þurfa ein mistök til þess að fá yfir sig aragrúa af hatursfullum skilaboðum. ,,Þetta dregur fram það versta í þessum svokölluðu íþróttaáhugamönnum. Það sem sjokkeraði mig mestt var hversu mikil reiði fólst í þessum skilaboðum, ég fékk meira að segja líflátshótanir."

Latifi segist geta staðið storminn af sér. ,,Fólk hefur sínar skoðanir og það er í lagi. Það að vera með þykkann skráp er stór hluti af því að vera íþróttamaður. Mörg þeirra skilaboða sem ég fékk fóru langt yfir strikið og það fékk mig til að hugsa hvernig sá hinn sami og sendi skilaboðin myndi bregðast við ef þeim hefði verið beint að honum. Enginn ætti að láta gjörðir háværs minnihluta stjórna því hver hann er."

Latifi þakkar þeim sem studdu við bakið á honum hann segir að íþróttir eigi að sameina en ekki sundra. ,,Ef þessar hugleiðingar mínar geta hjálpað einum einstaklingi þá var þetta þess virði."