Sir Jacki­e Stewart, sem varð á sínum tíma þre­faldur heims­meistari öku­manna í For­múlu 1, hvetur sjö­falda heims­meistarann Sir Lewis Hamilton, öku­mann Mercedes til þess að láta gott heita í móta­röðinni og snúa sér að öðrum á­huga­málum.

Þegar að níu um­ferðir eru liðnar af yfir­standandi tíma­bili situr Hamilton í 9. sæti í stiga­keppni öku­manna. Bíll Mercedes hefur ekki verið sam­keppnis­hæfur á tíma­bilinu saman­borið við Red Bull Ra­cing og Ferrari og ef fram heldur sem horfir gæti Hamilton verið að horfa upp á sinn versta árangur á einu tíma­bili í For­múlu 1 á hans 16 tíma­bila ferli í móta­röðinni.

,,Það er kominn tími fyrir hann til þess að hætta," sagði Jacki­e Stewart í sam­tali við Daily Mail hann vill að Hamilton snúi sér að öðrum á­huga­málum sínum. ,,Hann er fyrir tón­list, menningu, hann elskar föt og ég er viss um að hann yrði mjög far­sæll á öðru sviði og hann hefur nú þegar grætt gommu af peningum."

Þrátt fyrir bata­merki á frammi­stöðu Mercedes um síðustu keppnis­helgi í Kanada hefur bíll liðsins verið að valda liðinu haus­verk og hefur tekið sinn toll á Hamilton sem gat ekki komist einn og ó­studdur úr bílnum í Azer­ba­i­jan kapp­akstrinum.

Mercedes hefur verði í vand­ræðum með flökt á bílnum (e.por­poising) sem hefur þau á­hrif á öku­menn að það verður mun erfiðara fyrir þá að aka bílnum og nógu erfitt var það fyrir.

Gengið í gegnum erfiða tíma

Hamilton tók sér gott hlé frá fjöl­miðlum og sam­fé­lags­miðlum eftir von­brigða­endi síðasta tíma­bils og óttast var að hann myndi láta þetta gott heita af tíma sínum í For­múlu 1 en allt kom fyrir ekki. Hamilton hafði haldið sig fjarri sviðs­ljósinu síðan eftir loka­kapp­akstur síðasta tíma­bils þar sem að áttundi heims­meistara­titillinn rann honum úr greipum.

Mánuðina fyrir yfir­standandi tíma­bil hafði það legið í loftinu að Hamilton hyggðist bíða eftir niður­stöðu ú rann­sókn F1 nefndarinnar um at­burðar­rásina sem átti sér stað í loka­kapp­akstrinum í Abu Dhabi á síðasta tíma­bili. Hamilton fannst á sér brotið, pressan á Al­þjóða­kastur­s­í­þrótta­sam­bandinu (FIA) þess efnis að sam­bandið ætti að segja upp Michael Masi, keppnis­stjóra For­múlu 1 jókst og hann var á endanum látinn fara.

Erfið­leikar yfir­standandi tíma­bils gætu haft á­hrif á það hvaða stefnu Hamilton hyggst taka eftir tíma­bilið. Er það einungis bíllinn sem veldur því að hann er ekki lengur fasta­gestur á fremstu rás­röð eða er á­huginn hjá Bretanum far­sæla að dvína?