Kristján sparar ekki stóru orðin þegar hann er beðinn um að setja þetta tímabil í sögulegt samhengi. ,,Þetta tímabil mun fara í sögubækurnar sem eitt besta tímabil kappaksturssögunnar. Maður er þakklátur að vera vitni að því. Við erum mögulega að fara sjá sjöfaldan heimsmeistara og heimsmeistara síðustu ára verða hent af stalli af hinum unga Max Verstappen sem hefur ávallt verið litið á sem framtíðar heimsmeistara. Ég held að það sé draumur allra sem horfa á íþróttir að verða vitni að nákvæmlega svona slag.“

Verstappen vann keppni gærdagsins sem fór fram í Austin í Bandaríkjunum eftir æsispennandi baráttu við hinn sjöfalda heimsmeistara, Lewis Hamilton. Ökumennirnir tveir hafa verið í sérflokki á tímabilinu, saman hafa þeir unnið þrettán keppnir af sautján mögulegum.

Þeir hafa barist harkalega innan brautar og upp hafa komið atvik á milli þeirra sem munu verða fest í minni kappakstursáhugamanna um langa hríð. Skemmst er að minnast atviks á milli þeirra í Ítalíukappakstrinum á Monza fyrr á árinu er þeir lentu saman og féllu báðir úr leik eftir.

Verstappen og Hamilton í kröppum dansi á Monza
GettyImages

Kristján Einar segir baráttu Max og Lewis helst minna á baráttu Alain Prost og Ayrton Senna sem náði hámarki tímabilin 1988 og 1989. ,,Þeir eru búnir að skiptast á forystu í stigakeppni ökumanna í sex skipti á árinu og í þokkabót fáum við öll þessi atvik á milli þeirra innan brautar.“

Vísbending um að pressan sé að ná til Hamilton

Verstappen hefur aldrei verið jafn nálægt því að vinna Heimsmeistaratitilinn eins og nú. Fimm keppnir eru eftir og hann leiðir stigakeppni ökumanna. Hann fetar nú ótroðnar slóðir og það verður að koma í ljós hvort hann nái að standa af sér áhlaup Lewis Hamilton og pressuna sem því fylgir. Kristján telur að hann geti það: ,,Við erum miklu frekar búin að vera sjá brotalamir í frammistöðu Hamilton á tímabilinu sem geta verið að gefa það til kynna að hann sé ekki að ráða við pressuna.“

Kristján segist finna fyrir auknum áhuga Íslendinga á Formúlu 1, bæði í gegnum starf sitt hjá Viaplay sem og í kringum hlaðvarpsþátt sinn og Braga Þórðarsonar, Pitturinn. „Það segir ýmislegt að Pitturinn var í nokkrar vikur vinsælasta hlaðvarpið á Íslandi. Við erum að sjá gríðarlega aukningu í hlustun og ég finn rosalega mikið fyrir áhuga á íþróttinni hvert sem ég fer. Það kemur mér reyndar ekkert á óvart þar sem Formúla 1 er besta íþrótt í heimi," segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlu 1 á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn.

Hér fyrir neðan má hlusta á nýjasta þátt Pittsins á Spotify en þar er einnig hægt að finna eldri þætti.