Ein helsta ástæða þess að áhugi íþróttaáhugamanna hefur beinst í sífellt auknum mæli að Formúlu 1 eru þættir sem eru framleiddir af Netflix sem bera heitið Drive to Survive. ,, Þó að Netflix sé á margan hátt keppinautur okkar þá erum við ævintýralega þakklát Netflix því að þeir búa til þættina Drive to Survive í kringum Formúlu 1 sem hefur dregið inn nýjan kúnnahóp," sagði Hjörvar í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Það skýrist um helgina hver það verður sem hreppir heimsmeistaratitil ökumanna í Formúlu 1. Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing og Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes, eru jafnir að stigum fyrir lokakeppni tímabilsins sem fer fram í Abu Dhabi.

Hjörvar viðurkennir að vera nýr í sportinu, hann hefur komið sér í stöðu sem hann gerði áður fyrr grín að. ,,Ég get alveg viðurkennt að ég er nýr í Formúlunni, ég hafði mjög takmarkaðan áhuga á þessu en svo fór ég að fylgjast með þessu því mér fannst ég verða að gera það. Ég er all in í þessu núna. Ég hef stundum kynnst mönnum á mínum aldri sem fara allt í einu að horfa á fótbolta og hefur alltaf þótt það fáránlegt að koma svona seint inn en ég er þarna með Formúluna."

Ræddi málin við Kevin Magnussen

Viaplay er með útsendingarréttinn af Formúlunni og það eru þeir Kristján Einar Kristjánsson og Bragi Þórðarsson sem sjá til þess að færa íþróttaáhugafólki stemmninguna beint í æð á íslensku. ,,Þegar að ég hitti Kristján Einar eða Braga, Formúlu 1 lýsendurna hjá okkur, er ég alltaf með svona tvöhundruð spurningar á þá og mér fannst þessi kappakstur í Sádi-Arabíu síðast alveg geggjaður."

,,Mér fannst svo merkilegt að þegar að Hamilton keyrir aftan á Verstappen að framvængurinn skildi ekki hafa farið af hjá honum, ég er kominn það langt í þessu að ég er búinn að ræða þetta aðeins við Kevin Magnussen sem keppti á sínum tíma í Formúlunni og hann sagði að þetta hefði ekkert með það að gera að framvængurinn væri einhvað merkilegri hjá Mercedes. Þetta snerist bara um að hann var heppinn," sagði Hjörvar í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Finnst Toto Wolff svalur

Af orðum Hjörvars að dæma má draga þá ályktun að hann sér stuðningsmaður Red Bull Racing. Eftir að Mercedes létu skipta um mótor hjá Hamilton þá finnst mér við Red Bull menn ekki eiga breik á beinu köflunum. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu Mercedes liði með Hamilton, Bottas og náttúrulega minn mann Toto Wollf innanborðs, mér finnst Toto svalur. Þegar að maður verður gamall og áttar sig á því að maður getur ekki verið inn á vellinum, þá fer maður að hafa meiri áhuga á þeim sem eru í kringum hlutina, Toto er sá sem ég myndi vilja vera."

Hann segir að Formúla 1 sé sú íþrótt sem hannmun pæla mest í. ,,Þetta er búið að vera tryllt," sagði Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri Viaplay á Íslandi í Íþróttavikunni með Benna Bó.