Næsta kynslóð Formúlu 1 bíla mun verða alveg jafn kraftmikil og núverandi kynslóð bíla og auk þess verða þeir umhverfisvænni. Ný reglugerð er varðar vélar næstu kynslóðar Formúlu 1 bíla sem verður frumsýnd árið 2026 var samþykkt í vikunni.

Helst ber kannski að nefna að bílarnir munu ekki brenna neinu nýju jarðefnaeldsneyti. Formúla 1 í samtarfi við Aramco hefur staðið fyrir veigamiklum og ítarlegum rannsóknum undanfarið og afrakstur þess er fullkomlega sjálfbært eldsneyti.

Þá verður mun meiri áhersla lögð á rafmagn í nýju vélunum en núverandi 1.6 lítra V6 vélin mun þróast yfir í að innihalda mun öflugri rafgjafa þar sem afl sem er keyrt áfram á rafmagni mun þrefaldast. Sú orka mun aðallega myndast frá bremsukerfi bílsins, orka sem myndi annars vegar fara til spillist. Talið er að vélar 2026 bílsins munu ná að framleiða um 350 kílóvött.

Vélarnar munu þurfa minna eldsneyti en þrátt fyrir það mun hestöflunum ekki fækka svo máli skiptir og talað er um að vél 2026 bílanna muni geta framkallað yfir 1000 hestöfl. Síðastliðinn áratug hefur Formúla 1 verið að þróast í þá átt að bílarnir nota minna eldsneyti. Árið 2013 þurfti hver bíll um 160 kíló af eldsneyti fyrir hverja keppni. Talið er að árið 2026 muni sá kílóafjöldi vera um 70 kíló.

Fleiri upplýsingar munu verða opinberaðar um næstu stóru breytingar Formúlu 1 fyrir árið 2026 á næstu mánuðum.