For­múla 1 hefur sett á lag­girnar F1 akademíuna, kvenna­móta­röð sem svipar til For­múlu 1 sem á að hefjast á næsta ári. Mark­miðið með F1 akademíunni er að hjálpa og ýta undir fram­göngu ungra kven­kyns öku­manna og á endanum koma þeim í For­múlu 1.

Nýja móta­röðin mun saman­standa af fimm liðum sem hvert um sig hefur þrjá öku­menn á sínum snærum. Þá saman­stendur tíma­bilið í F1 akademíunni af sjö keppnis­helgum sem hver um sig inni­heldur þrjár keppnir. Ekki er búið að á­kveða keppnis­staði en miðað er við að ein þeirra fari fram á sama tíma og sama stað og keppnis­helgi í For­múlu 1.

„Öll ættu af að hafa tæki­færi til að fylgja draumum sínum og ná sínum mark­miðum. For­múlu 1 vill full­vissa sig um að við séum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að auka fjöl­breytni í móta­röðinni og leiðir inn í hana," segir Stefa­no Do­meni­cali, fram­kvæmda­stjóri For­múlu 1.

Það er ekkert launungar­mál að auka þarf fjöl­breytni innan For­múlu 1 mótaraðarinnar sem er ein­göngu skipuð karl­kyn­söku­mönnum þessa stundina líkt og hefur verið raunin alveg frá stofnun mótaraðarinnar í kringum 1950.

Kven­kyns öku­maður hefur ekki tekið þátt í keppni á vegum mótaraðarinnar síðan Lelle Lom­bardi ók í henni í Austur­ríki árið 1976. Skortur á fjár­magni til að styðja við ungar konur í mótor­sporti hefur reynst stór hindrun en nú reynir For­múla 1 að koma með leið til þess að koma í veg fyrir þessa hindrun.

Móta­röðin ætlar sér að niður­greiða hvern bíl með kostnaðar­á­ætlun upp á 150 þúsund evrur, því sem jafn­gildir rúmum 22 milljónum ís­lenskra króna en öku­menn verða síðan sjálfir að afla fjár jafna þá upp­hæð á móti með styrktar­aðilum.

Liðin, sem enn á eftir að nefna, munu standa straum af kostnaði þess sem fellur á milli.

Þá er það ætlun For­múlu 1 að bjóða fleiri ungum konum að­gang að rás­tíma og kapp­akstri til að hjálpa þeim að þróa færni sína með fag­teymum í mótor­sporti sem eru vön að hlúa að öku­mönnum með hæfi­leika í þeirri von um að þeir klífi upp met­orða­stigann og á endanum berjist um sæti í For­múlu 1.

Bruno Michel hefur verið ráðinn fram­kvæmdar­stjóri F1 akademíunnar og hann segir mark­miðin skýr.

„Við viljum sjá kven­kyns öku­menn á rás­röðinni í For­múlu 1 innan þriggja ára og sjá þær berjast um stig og sæti á verð­launa­palli fljót­lega eftir það.“