Rúnar Ívarsson, formaður Stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi, segir mál hins unga Mason Greenwood, knattspyrnumanns félagsins, varðandi meint ofbeldi gagnvart kærustu sinni afskaplega sorglegt.

Harriet Robson, kærasta knattspyrnukappans, birti í morgun myndir og hljóðupptöku á Instagram-síðu sinni og ásakaði Greenwood um gróft ofbeldi. Á myndunum mátti sjá Robson alblóðuga og marna og á hljóðupptöku mátti heyra Greenwoon þröngva sér á kærustu sína gegn hennar vilja.

Nú hefur nánast öllu verið eytt á Instagram-síðu Robson og ekki er ljóst hvort hún hafi verið þar að verki sjálf eða einhver annar. Manchester United sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og sagði vera með málið til skoðunar og að ekkert ofbeldi væri liðið innan félagsins.

„Ég verð nú að segja það að mér þykir afskaplega leiðinlegt að heyra þetta fyrir alla aðila, bæði unnustuna og hann,“ segir Rúnar í samtali við Fréttablaðið.

Ef málið reynist rétt þurfi Greenwood aðstoð, menn sem geri svona glími við vandamál.

Rúnar segir félagið ekki hafa fundað um málið en að hann hafi lesið fréttir af því í hádeginu í dag. Félaginu hafi ekki borist sérstök yfirlýsing frá klúbbnum en að hann hafi séð yfirlýsinguna sem félagið sendi frá sér í dag.

„Þeir hafa ekkert sent á okkur – við fáum kannski yfirlýsingu í fyrsta lagi í fyrramálið en ég hef trú á því að það sé hægt að leysa þetta mál á einhvern hátt.“

Rúnar segist hafa haft miklar mætur á Greenwood sem leikmanni enda þyki hann afskaplega efnilegur en þrátt fyrir ásakanirnar telur hann Greenwood eiga möguleika hjá liðinu áfram vegna þess hve ungur hann er.

„Ég hef alltaf haft trú á þessum dreng og þess vegna varð ég kannski líka fyrir ennþá meiri vonbrigðum vegna þess að ég sá alltaf fyrir mér að þetta væri svona drengur sem ætti eftir að vera hjá okkur í 15 til 20 ár. Þetta er bara þannig karakter. Virkar afskaplega rólegur í alla staði þó hann hafi verið í smá stuði hérna á Íslandi með vini sínum,“ segir Rúnar.

Hann vonast til þess að Greenwood og Robson fái viðeigandi aðstoð í kjölfar málsins.

Rúnar segir allt komið af stað aftur hjá Stuðningsmannaklúbbnum hér á landi og að allar ferðir út á leiki liðsins séu nánast uppseldar fram á vor.

„Það er örugglega líka þanng hjá öðrum klúbbum, landinn er orðinn ferðaþyrstur og ég vona að það gangi nú sem best hjá öllum sem eru að standa í þessu eins og við.“

Sjálfur segir Rúnar stemminguna aldrei hafa verið betri eins og hún var á móti West Ham síðustu helgi en ítrekar að mál Greenwood sé mjög sorglegt og segist hann vona að bæði Greenwood og kærasta hans fái viðeigandi aðstoð.