Hannes S. Jónsson, formaður körfuboltasambands Íslands, KKÍ, birtir í dag færslu á twitter-síðu sinni þar sem hann birtir mynd af æfingarsal rúmenska körfuknattleikssambandsins.

Íslenska kvennalandsliðið er statt í Búkarest þessa stundina þar sem liðið undirbýr sig fyrir leik gegn Rúmeníu í undankeppni EM, EuroBasket 2023.

Hannes bendir á það í færslunni að landslið á vegum KKÍ séu þessa stundina heimilislaus en þar á hann við að framkvæmdir standi yfir í Laugardalshöllinni en þar hafa A-landsliðin átt aðsetur fyrir æfingar og keppni.

Formaðurinn spyr svo í lok færslunnar hvort eitthvað sé að frétta af fjármagni í þjóðarleikvang í nýjum stjórnarsáttmála.

„Maður má láta sig dreyma," segir Hannes í lok færslunnar sem sjá má í heild sinni hér að neðan.