Ísland laut í lægra haldi fyrir Norður-Makedóníu, 24-17, þegar liðin mættust í Skopje í fyrstu umferð í forkeppni fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer á Spáni í desember seinna á þessu ári.

Þetta voru fyrstu leikir íslenska liðsins síðan haustið 2019 en þá lék Ísland tvo leiki sem voru þeir fyrstu undir stjórn Arnars Péturssonar. Ísland lék án Karenar Knútsdóttur, sem alla jafna er fyrirliði, og Díönu Daggar Magnúsdóttur í þessum leik.

Ísland hóf leikinn mun betur og þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum var staðan 7-2 íslenska liðinu í vil.

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, sem er í lykilhlutverki í miðri vörninni, á línunni í sóknarleiknum og í hraðaupphlaupum meiddist á hné um miðjan fyrri hálfleik.

Helena Rut Örvarsdóttir leysti Steinunni af hólmi í varnarleiknum og Ásdís Guðmundsdóttir í línumannsstöðunni.

Norður-Makedónar tóku við sér í seinni hluta fyrri hálfleiksins og jöfnuðu metin í 7-7. Þá tók íslenska þjálfarateymið leikhlé.

Heimakonur hömruðu járnið á meðan það var heitt og staðan 11-8 í hálfeik. Stelpurnar okkar vöknuðu hins vegar aftur til lífsins í upphafi seinni hálfleiks og Thea Imani Sturludóttir jafnaði í 12-12. Sunna Jónsdóttir kom svo Íslandi 13-12 yfir.

Þegar upp var staðið voru það aftur á móti Norður-Makaedónar sem reyndust sterkari og fóru með sjö marka sigur af hólmi.

Mörk Íslands í leiknum: Lovísa Thompson 3, Ragnheiður Júlíusdóttir 3, Rut Jónsdóttir 3, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Sigríður Hauksdóttir 1, Steinunn Björnsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði vel fyrir aftan sterka vörn íslenska liðsins.

Sara Ristovska reyndist leikmönnum íslenska liðsins erfið en hún skoraði ellefu mörk fyrir Norður-Makedóníu. Þá var Mateja Serafimova öflug í marki norður-makedónska liðsins, einkum í seinni hálfleik.

Harpa Valey Gylfa­dótt­ir úr ÍBV og Tinna Sól Björg­vins­dótt­ir hjá HK spiluðu sinn fyrsta landsleik og Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Fram og Eyjakonan Ásdís Guðmundsdóttir þann þriðja.

Íslenska liðið mætir svo Grikklandi annað kvöld og Litháen á sunnudagskvöldið. Tvö efstu liðin í riðlinum fara áfram í næsta stig undankeppninnar sem leikin verður með útsláttarfyrirkomulagi um miðjan apríl næstkomandi.