Löng vegferð karlalandsliðsins í körfubolta í undankeppninni fyrir HM 2023 hefst á ný í kvöld, þegar Ísland mætir Lúxemborg í Slóvakíu. Þetta er fyrri leikur íslenska liðsins af tveimur í þessu landsleikjaverkefni og fara þeir fram í „búbblu” í höfuðborg Slóvakíu. Seinna í dag mætast Slóvakía og Kósovó í sama riðli en tvö lið fara áfram á næsta stig forkeppninnar fyrir undankeppnina fyrir HM 2023.

Þetta verður 38. viðureign Íslands og Lúxemborg og hafa Íslendingar fagnað sigri í 32 leikjum af 37 til þessa. Liðin mættust fyrst árið 1975 en hafa reglulega mæst á Smáþjóðaleikunum undanfarin ár. Liðin mættust síðast árið 2019 þegar Lúxemborg vann tíu stiga sigur.

Martin Hermannsson er ekki með íslenska liðinu vegna verkefna með Valencia í EuroLeague. Þá greindist Haukur Helgi Pálsson, leikmaður Andorra á Spáni, með kórónaveiruna í Slóvakíu og verður hann þar af leiðandi fjarri góðu gamni í þessum leik.