Hjónin Guðmunda Bjarnadóttir og Viðar Elíasson eru margreynd þegar kemur að því að styðja íslenska kvennalandsliði af áhorfendapöllunum á stórmótum. Dætur þeirra, þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir hafa báðar farið á stórmót og sú síðarnefnda er nú á leið á sitt annað stórmót með íslenska landsliðinu.

Guðmunda og Viðar segjast finna marktækann mun milli stórmóta í kvennaboltanum.

„Það er mjög marktækur munur, það er mun meiri meðbyr með liðinu í dag. Auglýsingar, þættirnir sem birtast um stelpurnar og öll skrifin. Það er ekki hægt að líkja þessu saman,“ segir Guðmunda Bjarnadóttir, móðir Elísu og Margrétar Láru Viðarsdætra, aðspurð út í aðdraganda mótsins til samanburðar við fyrsta mót íslenska liðsins.

Guðmunda og Viðar
Mynd: Aðsend

Þau hjónin, Guðmunda og Viðar Elíasson, eru á leiðinni á sitt fjórða stórmót með íslenska liðinu. „Það voru ekki margir sem komu á fyrsta mótið í Finnlandi en það hefur fjölgað í hópnum með hverju móti sem líður og það hafa aldrei verið jafn margir og í Hollandi,“ segir Viðar.

Þau mættu á EM 2017 í Hollandi þrátt fyrir að báðar dætur þeirra meiddust í aðdraganda mótsins. „Fyrir leikina í Hollandi voru viðburðir í aðdraganda leikjanna sem mynduðu þessa skemmtilegu stemmingu,“ segir Guðmunda og Viðar telur að það verði skemmtileg stemning sem myndist í sumar.

„Kvennaboltinn er í mikilli sókn, sérstaklega í Bretlandi. Mun meiri aðsókn og umfjöllun sem eykur sýnileika og fjármagnið í kvennaboltanum.“

Viðar telur að það sé góð ástæða til bjartsýni. „Við erum að fara að mæta sterkum liðum, þurfum að eiga góða leiki til að standa í þeim. Góðir leikmenn innanborðs, þurfum að mæta einbeitt og þá er aldrei að vita. Það er ástæða til bjartsýni.“