Neyðarfundur UEFA fer fram í dag þar sem örlög Evrópukeppninnar, Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar verða ráðin. Alls munu 55 ríki taka þátt í myndbandsfundinum og hefst hann klukkan 13 í dag. Flestir búast við einhvers konar tillögum um hvernig og hvort deildarkeppnirnar muni klárast. Rúmlega tvö þúsund manns hafa látist á Ítalíu, sem á að halda opnunarleikinn á EM 2020. Gabriele Gravina, formaður ítalska knattspyrnusambandsins og Roberto Mancini, landsliðsþjálfari Ítala, hafa beðið um að keppninni verði frestað. „Sumir vilja spila áfram en aðrir ekki. Þetta gæti orðið langur fundur,“ sagði Noël Le Graët, formaður franska knattspyrnusambandsins, við TF1 í gær. Þýska ríkissjónvarpið, ZDF, leitaði að svörum hjá FIFA, hvort alþjóðaknattspyrnusambandið hefði eitthvað um málið að segja. Það koma einfaldlega „No comment“

Fótboltinn finnur fyrir Kórónavírusnum eins og annað

Magnús Már Einarsson ritstjóri fótbolta.net

„Þetta eru skrýtnir tímar en það þýðir ekkert annað en að vera með bjartsýnina að vopni. Ég tippa á að UEFA fresti EM til sumarsins 2021 og umspilið fari fram í haust. Þar tryggir Ísland sér sæti á EM með glæsibrag. Þjóðadeildinni verður frestað en það er algjör óþarfi að draga aftur í riðla. Deildarkeppnin á Englandi byrjar aftur í maí fyrir luktum dyrum og klárast í byrjun júlí. Liverpool fær bikarinn afhentan í lokaleik en það verður fyrsti leikurinn með áhorfendur eftir að kórónuveiran skall á. Meistaradeildin klárast með því að sleppa því að spila heima og úti í 8-liða og undanúrslitum. Leikið verður á hlutlausum völlum og málið afgreitt. Leikmenn fá stutt sumarfrí í júlí og síðan byrjar fjörið allt saman aftur í lok ágúst.“

Stefán Árni Pálsson blaðamaður á Vísi og knattspyrnulýsir á Stöð 2 sport

„Ég tel ekki miklar líkur á því að umspilsleikur Íslands og Rúmena fari fram. Hvað þá Evrópumótið og líklega verður því frestað um eitt ár. Það er mjög erfitt að átta sig á deildarkeppnunum í Evrópu en vonandi verður hægt að klára þær allar í sumar. Ég tel ólíklegt að þær hefjist á nýjan leik í byrjun apríl og kannski í lok maí. Vonandi fáum við bara úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ágúst og sumardeildir á fullu um alla Evrópu í sumar. Það væri kannski bara stuð. Eitt er víst, það verður mjög erfitt að leysa þetta.“

Jordan Henderson vill endilega lyft enska titlinum. Fær hann það fyrir framan áhorfendur. Vonandi skýrist það í dag.
fréttablaðið/getty

Hörður Snævar Jónsson ritstjóri 433.is

„Ég á ekki von á öðru en að UEFA fresti Evrópumótinu til ársins 2021. Ég á svo ekki von á því að það verði neinn fótbolti spilaður fyrr en í lok apríl, eða byrjun maí. Deildirnar munu þá fara af stað um alla Evrópu og þær kláraðar í hraðmóti. Meistaradeild og Evrópudeildin verða svo leiknar í júní, til að hægt sé að hefja nýtt tímabil á réttum tíma næsta haust. Ég á von á því að deildirnar hérna heima fari af stað um miðjan maí, KSÍ mætti á næstu dögum koma með útfærslur fyrir félög og fjölmiðla um hvernig plönin eru. Hægt væri að gefa út plan A, B og C, eftir því hvenær er hægt að hefja mótið og hvaða leið verður þá farin. Það gefur þjálfurum og leikmönnum ágæta hugmynd um hvernig málin geta þróast.“

Elvar Geir Magnússon ritstjóri fótbolta.net

„Ég er nokkuð viss um að fyrsta ákvörðunin verði að láta landsliðsfótbolta víkja. Evrópumótinu verður væntanlega seinkað um ár og þar með búið til svigrúm fyrir deildarkeppnir Evrópu að klára sín tímabil. Ég býst svo við því að stærstu deildirnar muni fara gjörólíkar leiðir. Enska deildin er staðráðin í að klára sitt tímabil en þá verður bikarnum væntanlega aflýst. Forseti La Liga talar um að aflýsa tímabilinu á Spáni og Ítalía gæti smíðað úrslitakeppni til að fá niðurstöðu um meistaratitilinn, Evrópusæti og fall. Í framhaldinu þyrfti svo væntanlega að spila næsta tímabil í öðruvísi mynd. Það verður flókið fyrir UEFA að klára Meistaradeildina og Evrópudeildina. Það eru engar líkur á því að öll lönd verði klár í slaginn á sama tíma. UEFA mun líklega einfalda þessar keppnir og fækka leikjum í þeirri von að hægt verði að krýna meistara. En það gæti reynst erfitt púsluspil.“

Kristjana Arnarsdóttir íþróttafréttamaður á RÚV

„Það er auðvitað agaleg staðreynd að EM eigi að fara fram í tólf löndum í Evrópu í sumar og ég get ekki séð að þessir umspilsleikir verði spilaðir. Ég held að UEFA verði að fresta Evrópumótinu og ég sé í rauninni ekkert að því að halda EM á næsta ári. Þá verður þetta bara vonandi ein allsherjar fótboltaveisla með EM karla og EM kvenna. UEFA er líklega bara í þeirri stöðu núna að þeir eru að hugsa um Meistara- og Evrópudeildina og þá hvernig það eigi að klára það allt saman. Þetta er auðvitað eitthvað flóknasta púsluspil sem fótboltinn hefur séð. Ég væri ekki neitt til í að vera starfsmaður UEFA þessa dagana.“

Aðalheiður Ámundadóttir, blaðakona á Fréttablaðinu

„Ég tel líklegast og skynsamlegast að Evrópumótinu verði frestað til næsta sumars, sem myndi þýða að Evrópumótið yrði 2021. Þessi lausn myndi gefa deildunum möguleika á að fresta þeim umferðum sem eftir eru lengra fram á vor og sumar. Ef við tökum Premier league sem dæmi, þá mætti fresta þeirri deild þess vegna fram í maí og taka svo átta umferðir í góðri skorpu sem myndi þess vegna geta teygst fram í lok júní og jafnvel byrjun júlí. Þetta væri hægt ef Evrópumótinu yrði frestað um eitt ár. Þetta eru mínar vonir sem Liverpoolkonu, það er, að tímabilið verði ekki slegið af. Það yrði mjög ósanngjarnt, bæði að klára deildina eins og hún stendur núna og líka að slá hana af. Frestun fram á vor er besta leiðin en hún er aðeins möguleg ef Evrópumótinu verður frestað.“

Drengirnir sem sýna íslendingum enska boltann eru í biðstöðu eins og er - eins og svo margir aðrir.

Tómas Þór Þórðarson ritstjóri enska boltans á Símanum

„Fyrsta skref verður líklega að fresta EM 2020. Það er auðveldari ákvörðun en hefði annars verið þar sem fjárhagslegur skellur fellur ekki á eitt land að þessu sinni. Þar með er allt umspil úr sögunni og UEFA búið að kaupa sér tíma fram á sumar til að hafa þar glugga til að spila einhvers konar útgáfu af Meistaradeild og Evrópudeild. Hún verður þó líklega stytt og/eða einfölduð. Hvernig UEFA ætlar samt að taka allar þessar ákvarðanir þegar sambandið veit ekki hvernig, hvenær og hvort aðildarlöndin verða tilbúin skil ég ekki alveg. Mér finnst ekkert ólíklegt að fjórar af fimm stóru deildunum aflýsi bara tímabilinu sínu en pressan að klára ensku úrvalsdeildina er rosaleg enda langstærsta deildin þegar kemur að fjármunum. Það er alltaf ósanngjarnt fyrir einhverja að slaufa tímabilinu en í ensku deildinni eiginlega verður að spila leik Sheffield United og Aston Villa sem þau eiga inni. Sheffield gæti mögulega komist í Meistaradeild með sigri og Villa sömuleiðis sloppið við fall. Það sem enskir glíma við er gríðarleg óvissa sem og auðvitað allur fótboltaheimurinn.“

Daníel Geir Moritz formaður knattspyrnudeildar ÍBV

„Ég held að EM verði frestað um ár og stefnt verði að því að ljúka öllum keppnum í júní; Meistaradeildinni, deildarkeppnum o.s.frv. Það er allavega ljóst að grípa þarf til aðgerða og fæ ég ekkert séð sem mælir gegn því að þetta verði hægt. Með því að færa EM til næsta árs skapast tækifæri að leika EM karla og kvenna á sama tíma. Slík tilraun gæti orðið til þess að vekja áhuga á kvennaboltanum enn frekar og tel ég rétt að prófa slíkt. Sér í lagi vegna áhugans sem skapaðist á síðasta HM kvenna. Umspil fyrir EM karla ætti að geta farið fram í ágúst og Þjóðardeildin ætti að geta farið fram þrátt fyrir þessar breyttu forsendur. En það yrði einhvern veginn dæmigert að þessi skrambans veira sem veldur fótbolta- og samkomubanni myndi ná að hrifsa af okkur draumariðilinn í Þjóðadeildinni.