Patrik Sigurður Gunnarsson hefur varið mark tveggja liða sem komust upp í efstu deildina í knattspyrnu karla í dönsku B-deildinni á nýloknu keppnistímabili.

Fyrri hluta tímabilsins lék hann með Viborg og seinni hlutann með Silkeborg þar sem Stefán Teitur Þórðarson leikur einnig. Patrik Sigurður átti stóran þátt í því að tryggja sæti Silkeborg í deild þeirra bestu en hann hélt marki sínu hreinu í átta af síðustu níu leikjum liðsins í deildinni.

Patrik Sigurður lék með þessum liðum sem lánsmaður frá enska B-deildarliðinu Brentford en hann hefur verið á mála hjá enska liðinu síðan árið 2018.

„Þetta hefur verið frábært tímabil og það er mjög gaman að vera hluti af því að tryggja tveimur liðum gengi upp í efstu deild. Ég ræddi við danska blaðamenn sem segjast hafa kannað málið og svo best þeir vissu þá væri ég fyrsti leikmaðurinn til þess að gera það,“ segir Patrik Sigurður um tímabilið sem er að ljúka.

„Það var ákveðið fyrir leiktíðina að ég færi á lán frá Brentford eftir að hafa leikið með varaliðinu þar fyrst eftir að ég kom og svo tekið eitt tímabil þar sem ég var hluti af aðalliðshópnum sem þriðji markmaður.

Brentford er með sterkar tengingar við Danmörku og forráðamenn liðsins þekkja landslagið vel þar. Því var ákveðið að ég færi til Viborg og eftir lánstímann þar kom sú staða upp að Silkeborg vantaði markmann og ég færði mig þangað,“ segir hann enn fremur um þróun mála.

„Þetta eru tvö ólík lið en Viborg spilar beinskeyttari fótbolta þar sem hlutverk mitt var að slá löngum boltum á rétta staði. Það var fín tilbreyting eftir að hafa alist upp hjá Blikum og verið hjá Brentford þar sem áherslan er á að spila frá markmanni.

Hjá Silkeborg var ég svo aftur kominn í fótbolta sem ég þekki vel þar sem uppleggið var að spila boltanum frá öftustu línu og milli línanna. Það var fínt að fá að prófa báða leikstílana. Gæði í dönsku B-deildinni komu mér á óvart og mér fannst þetta svipað því þegar ég spilaði með Southend í ensku C-deildinni fyrr á þessu ári,“ segir Patrik sem lék nokkra leiki sem lánsmaður hjá Southend í febrúar í upphafi þessa árs.

„Nú klára ég þá fjóra leiki sem eftir eru með Silkeborg og stefnan er að klára deildina í efsta sæti. Ég fæ reyndar gullmedalíu sama hvernig þetta endar. Svo fer ég aftur til Brentford og byrja undirbúningstímabilið þar.“

Brentford er þessa dagana í harðri baráttu um að komast upp í ensku úrvalsdeildina eftir langa fjarveru en annað árið í röð var Brentford einu sæti frá því að komast beint upp. Brentford leikur á næstu dögum í umspili upp á sæti í sterkustu deild heims.

„Við ræðum málin þegar nær dregur hausti um hvar ég spila á næsta tímabili. Brentford er í harðri baráttu um að fara upp í efstu deild á Englandi og þegar í ljós kemur hvernig það endar munum við taka stöðuna. Mér finnst líklegast að ég verði annar markmaður hjá Brentford eða fari aftur á lán og ef ég fer á lán myndi ég vilja taka næsta skref og fara í sterkari deild,“ segir hann um framhaldið.