Damar Hamlin, leikmaður NFL liðs Buffalo Bills fór í hjartastopp í leik liðsins gegn Cincinatti Benglas í nótt. Tilraunir til endurlífgunar á leikvangi Bengals báru árangur og liggur Hamlin nú þungt haldinn á sjúkrahúsi í Cincinnati. Frá þessu er greint á vefsíðu ESPN.
Atvikið átti sér stað um miðbik fyrsta leikhluta leiksins. Tilraunir til endurlífgunar Hamlin stóðu yfir í nokkrar mínútur en skömmu fyrir hjartastoppið lenti hann í harkalegu samstuði við Tee Higgins, leikmann Bengals.
Sextán mínútum eftir að Hamlin hneig niður, var hann kominn um borð í sjúkrabíl og á leið á sjúkrahús.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Buffalo Bills er Hamlin nú haldið sofandi, hann er í lífshættu.
Fjöldi fólks hefur sýnt stuðning í verki og safnast saman fyrir utan háskólasjúkrahúsið í Cincinnati þar sem Hamlin liggur nú inni.
