Mikið var um fagnaðarlæti á Leirdalsvelli á sunnudag þegar Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 11. braut golfvallarins.

„Ég trúði þessu ekki, ég fór að gráta og stelpurnar réðu sér ekki fyrir kæti. Það tók smá tíma að síast inn, þetta er æðislega gaman fyrir allt hollið,“ segir Ingibjörg í samtali við Fréttablaðið en hún missti hægri höndina í vinnuslysi þegar hún var 16 ára gömul. 

Lét meiðsli ekki halda aftur af sér

Ingibjörg byrjaði að fikra sig áfram í golfi árið 2012 og spilar með Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar samhliða því að starfa á skrifstofu Landspítalans.

Hún hefur glímt við meiðsli frá því á síðasta ári og var með lágmarksvæntingar í byrjun sumars. Því er óhætt að segja að árangurinn hafi komið henni á óvart.

„Ég er í rauninni bara búin að spila annan hvern hring í sumar, bara til að vera með, en svo hefur þetta alltaf verið að ganga betur og betur svo ég er bara alsæl með sumarið og að fá svo svona slaufu er ekki leiðinlegt.“

Hún segist enn vera á skýi og verði þar líklega fram á vetur.

Ætlaði að safna fuglum í sumar

Nokkrum dögum áður var Ingibjörg nálægt því að ná holu í höggi og var búin að segja vinum sínum að hún ætlaði bara að taka einn fugl á hring það sem eftir er sumars.

„Það klikkaði þarna á sunnudeginum og það kom hola í höggi í staðinn,“ segir hún létt í bragði.

„Ég er enn að melta þetta. Þetta er eins og að vinna í happdrætti og fá stórvinning. Margir af okkar bestu kylfingum hafa ekki farið holu í höggi svo þetta er ekkert gefins.“

Ingibjörg spilar með svokallaðri golfhendi sem er sérsniðin fyrir íþróttina og hefur unnið að þróun slíkrar hendi með stoðtækjaframleiðandanum Össuri.

„Við erum að þróa íslenska hendi með olnbogahreyfingu og öllu sem er ofsalega spennandi en ég þurfti að hvíla hana út af þessum meiðslum mínum. Við förum líklega bara af stað aftur seinna í sumar.“

Að sögn Ingibjargar eru minnst þrír aðrir golfarar sem spila einhentir á Íslandi. Þar af er ein önnur sem notar golfhendi og spilar með Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.