Vilhjálmur Bretaprins fór á vísvitandi á svig við venjur bresku konungsfjölskyldunnar þegar að hann óskaði leikmönnum enska kvennalandsliðsins til hamingju með Evrópumeistaratitilinn eftir úrslitaleik liðsins gegn Þýskalandi á dögunum.

Þetta segir fyrrum þjónn konungsfjölskyldunnar í samtali við tímaritið OK! Á þjónninn þar við fagnaðarlætin eftir leik þar sem Vilhjálmur tók á móti hetjunum frá Englandi ásamt Alexander Ceferin, forseta UEFA. Vilhjálmur tók á móti flestum leikmönnum með faðmlagi og óskaði þeim innilega til hamingju.

Brytinn telur að þar með hafi prinsinn farið á svig við venjuna að meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar heilsi aðeins með handabandi á opinberum viðburðum.

,,Sögulega séð hefur venjan verið sú að ef þú hittir meðlim konungsfjölskyldunnar horfirðu en þú snertir ekki. Ef meðlimur konungsfjölskyldunnar bíður þér að taka í höndina á sér þá samþykkirðu það," sagði fyrrum þjónn konungsfjölskyldunnar, Grant Harrold.

Harrold telur að Vilhjálmur hafi gert þetta vísvitandi til þess að koma því á framfæri opinberlega að konungsfjölskyldan sé í takt við nútímavenjur. Líkamlega snertingin og faðmlag gæti einnig verið snefill af uppeldinu sem hann fékk frá móður sinni, Díönu prinsessu.