„Ég fer ekki út að sjá þær spila en fylgist vandlega með að heiman. Þetta verður skrýtið því ég var búin að sjá þetta öðruvísi fyrir mér,“ segir Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals, spurð út í tilfinninguna sem fylgir því að vera fjarri landsliðshópnum á Evrópumóti í fyrsta sinn. Fanndís hefur farið á síðustu þrjú Evrópumót með landsliðinu og skoraði eina mark Íslands á síðasta EM. Meiðsli undir lok síðasta árs sem reyndust slitið krossband gerðu hins vegar út um vonir Fanndísar um að komast á sitt fjórða Evrópumót í röð.

„Seinkunin um eitt ár virtist ætla að henta mér vel til að ná aftur fyrri styrk eftir óléttuna og ég var á mjög góðri vegferð áður en ég meiðist þarna í desember.“

Hún fær því að fylgjast með mótinu frá nýju sjónarhorni í ár, en búið er að selja metfjölda miða og verður mótið það stærsta til þessa. Fanndís tekur undir að það sé í takti við meðbyrinn sem kvennaknattspyrnan nýtur víðs vegar um Evrópu þessa dagana.

„Það er allt annað að fylgjast með aðdragandanum, þetta virðist ætla að verða stærsta mótið til þessa og í takti við þróun kvennaknattspyrnunnar. Ef ég er hreinskilin dauðöfunda ég stelpurnar af því að vera að fara á mótið en samgleðst þeim um leið, sérstaklega þeim sem eru að fara í fyrsta skiptið,“ segir Fanndís og heldur áfram:

„Ég gerði mér ekki endilega grein fyrir því hvað þetta var stórt tækifæri árið 2009, þá bara nítján ára. Það var strax allt stærra fjórum árum síðar á EM 2013 og það náði svo nýjum hæðum á EM í Hollandi. Það verður gaman að fylgjast með þessu í sumar því þetta á eftir að verða enn stærra í takti við vaxandi áhuga á kvennaknattspyrnu.“

Fanndís, sem er í sjöunda sæti þegar kemur að fjölda landsleikja og níunda sæti þegar kemur að fjölda marka frá upphafi, segir að það sé erfitt að lýsa því hvernig það sé að koma fram á stórmóti fyrir hönd þjóðarinnar.

„Í loks dagsins eru þetta bara knattspyrnuleikir, en á sama tíma er þetta svo ofboðslega mikill heiður. Umgjörðin í kringum þessa leiki og mótið í heild sinni gefur þessu alltaf aukna vigt. Þessi samheldni sem skapast í leikmannahópnum, lengri tími sem það er æft saman og einföldu hlutirnir, eins og að klæðast eins í aðdraganda leikja. Það er erfitt að lýsa þessu. Það er alltaf aukin hvatning, þegar maður er að spila fyrir Íslands hönd. Svo er fjölskyldan og fólkið manns í stúkunni sem gefur þessu um leið aukið vægi,“ segir Fanndís, spurð hvernig hægt sé að lýsa því að koma fram fyrir Íslands hönd á stórmóti.

Þrátt fyrir brösugt gengi íslenska liðsins á síðasta stórmóti gekk Fanndís nokkuð stolt af frammistöðu sinni frá borði, sérstaklega markinu.

„Fyrir mót var ég búin að setja mér það markmið að koma að marki, helst að skora mark, enda í þeirri stöðu á vellinum. Þetta var mjög eftirminnileg stund og um leið ákveðinn léttir að sjá boltann í netinu. Með því var ég búin að ná markmiði mínu og gat strikað það út af listanum,“ segir Fanndís glettin og heldur áfram:

„Það eru blendnar tilfinningar að rifja mótið upp, liðinu gekk ekki vel en mér fannst frammistaða mín fín. Þegar ég lít til baka er ég ánægð með hvernig ég stóð mig þó að úrslitin hafi ekki verið okkur hagstæð.“

Eyjamærin, sem hefur leikið með Breiðabliki og Val á Íslandi, Kolbotn og Arna Björnar í Noregi, Marseille í Frakklandi og Adelaide United í Ástralíu, er ánægð með hópinn.

„Þegar ég lít yfir hópinn finnst mér hann mjög vel samsettur og aldursdreifingin í honum góð. Það er mikilvægt að hafa reynslumeiri leikmenn eins og Söru, Hallberu, Gunnhildi, Sif og Söndru þarna í bland við yngri leikmennina, sem eru hrikalega spennandi. Sveindís og Karólína eru stjörnur framtíðarinnar og ég vona að þær og aðrir yngri leikmenn liðsins nái að springa út og taka næsta skref á landsliðsferlinum á EM.“

Fanndís vill sjá íslenska liðið komast upp úr riðlinum en eftir það sé pressan farin af Íslandi.

„Það er kannski gróft að gera kröfur á það, en ég tel að það sé raunhæft markmið að stefna á að fara upp úr riðlinum. Eftir það er allt mögulegt,“ segir Fanndís og tekur undir að fyrir fram séu Frakkar með sterkasta lið riðilsins.

„Við höfum mætt Frökkum nokkrum sinnum og þær eru svakalega erfiður mótherji enda í flokki bestu liða heims. Fyrir fram erum við litla liðið í því einvígi, sem gæti hentað okkur vel. Við stóðum í þeim árið 2017 og vorum óheppnar að fá ekkert úr þeim leik,“ segir Fanndís, sem er greinilega ekki búin að gleyma leiknum þar sem Frakkar unnu 1-0 sigur með ódýrri vítaspyrnu á loka­mínútum leiksins.

„Þær fengu þetta mjög ódýra víti sem var alls ekki víti. Það gerði útslagið,“ segir hún kímin að lokum.