Í skýrslunni segir Casey að fólk hafi verið í lífshættu og að málið sé þjóðarskömm fyrir Englendinga. Í kringum 2000 miðalausir einstaklingar náðu að brjóta sér leið inn á Wembley þar sem úrslitaleikur Englands og Ítalíu fór fram, 400 af þeim einstaklingum náðist að henda út af leikvanginum.

Í skýrslunni segir að mistök hafi átt sér stað í aðdraganda leiksins og að skipulag hafi verið ábótavant. Reynslulitlir öryggisverðir voru að störfum og lögregluyfirvöld brugðust of seint við.

,,Við erum heppin að meiðsli einstaklinga í kringum óeirðirnar hafi ekki verið meiri og alvarlegri en raun bar vitni. Grípa þarf til harðari aðgerða til að koma í veg fyrir að óeirðarseggir nái sínu framgengt í tengslum við knattspyrnuleiki í framtíðinni," segir barónessan Louise Casey í skýrslunni. Hún segir aðal ábyrgðina á óeirðunum liggja hjá þeim sem misstu stjórn á hegðun sinni.

Leiknum lauk með sigri Ítalíu eftir vítaspyrnukeppni. Í skýrslunni segir að ef Englendingar hefðu unnið leikinn hefði mátt búast við því að allt að 6000 einstaklingar hefðu brotið sér leið inn á Wembley á sama tíma og dyrnar að leikvanginum yrðu opnar til þess að hleypa áhorfendum út af honum.

Talsmaður neyðarþjónustunnar í London segir að afleiðingar þess hefðu verið hræðilegar.

Áfengi og eiturlyf, spiluðu stóran þátt í óeirðum stuðningsmanna sem voru margir hverjir mættir fyrir utan Wembley átta klukkustundu áður en leikurinn var flautaður á.

Mark Bullingham, framkvæmdarstjóri enska knattspyrnusambandsins, sættir sig við niðurstöðu skýrslunnar og segir sambandið hafa beðist afsökunar. ,,Í sameiningu verðum við að sjá til þess að svona gerist aldrei aftur."

Enska knattspyrnusambandið hefur verið sektað um 100.000 evrur og enska landsliðið mun þurfa að spila næsta heimaleik sinn á vegum UEFA fyrir luktum dyrum.