Yfirmaður öryggismála í Katar segir að það þýði ekkert að reyna að smygla áfengi inn í landið fyrir HM 2022 þar sem landamæraverðir eigi eftir að skoða farangur allra sem koma til landsins.

„Það verða sérstakar ráðstafanir. Áfengi mun ekki komast í gegnum eftirlitið en það verða sérstakir staðir sem selja áfengi á meðan mótinu stendur,“ sagði Jassim Abdulrahim Al Sayed á blaðamannafundi í dag.

Afar strangar reglur gilda í Katar þegar kemur að áfengisneyslu og er aðeins ein verslun sem selur áfengi og stærstu hótel landsins.

Ekki er heimilt að drekka á almannafæri né vera ölvaður á almannafæri.

Undanþága gerir það að verkum að heimilt verður að selja bjór á stuðningsmannasvæðum og á leikvöllum enda er Budweiser einn af helstu styrktaraðilum mótsins.