Danski kylfingurinn Thorbjørn Olesen var í vikunni sýknaður af öllum ákærum en hann var sakaður um kynferðislegt ofbeldi, áreitni og ölvun um borð í farþegaflugi.

Olesen sem var hluti af Ryder Cup liði Evrópu árið 2018 var á leiðinni til Evrópu eftir mót á PGA-mótaröðinni þegar atvikið átti sér stað.

Kylfingurinn var ofurölvi og lét öllum illum látum en sleppur við refsingu þrátt fyrir það. Fullyrti hann fyrir dómstólunum að hann hefði verið að ganga í svefni og bar fyrir sig minnisleysi.

Hann var sakaður um að hafa ýtt við flugfreyju, þuklað á annarri og kysst þá þriðju áður en hann sofnaði. Þá kastaði hann af sér þvagi á flugvélaganginum.

Að sögn Danans var hann búinn að drekka áfengi og taka inn sterk verkjalyf og segist hann ekki muna eftir ferðinni. Við lendingu var Olesen handtekinn.

Hann var settur í tímabundið bann frá Evrópumótaröðinni þegar atvikið átti sér stað en hefur ekki náð takti eftir ferðalagið.