Valur heimsótti þýska stórliðið Flensburg í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld.

Eftir jafnræði á fyrstu mínútunum tóku heimamenn völdin og komust mest í sex marka forystu í fyrri hálfleik, 14-8.

Valsmenn unnu hins vegar vel á forskot Flensburg og var staðan í hálfleik 16-14.

Valur hélt í við Þjóðverjanna í seinni hálfleik og komst yfir í tvígang.

Að lokum sigldu heimamenn þó fram úr og unnu þriggja marka sigur, 33-30.

Benedikt Gunnar Óskarsson var atkvæðamestur í liði Vals í kvöld með átta mörk.

Úrslitin þýða að Valur er með fimm stig í fjórða sæti af sex liðum í B-riðli þegar sjö umferðir af tíu hafa verið leiknar. Fjögur efstu liðin fara einmitt áfram.

Valur er með jafnmörg stig og Ferencvaros í fimmta sætinu og stigi meira en Benidorm.