Valsmenn töpuðu í kvöld sínum fyrsta leik í Evrópudeildinni í handbolta gegn þýska úrvalsdeildarfélaginu Flensburg. Fyrir fram var vitað að um erfitt verkefni væri að ræða fyrir Valsmenn en liðið sýndi flotta kafla í leiknum þrátt fyrir fimm marka tap, 32-37.

Origohöllin var kjaftfull í kvöld og mikil stemning á Hlíðarenda sem setti svo sannarlega svip sinn á leikinn.

Boðið var upp á algjöra handboltaveislu allt frá upphafi leiks til enda hans. Fyrri hálfleikur var mjög jafn þar sem aðeins tvö mörk skildu liðin að, Flensburg í vil, eftir fyrstu tíu mínútur leiksins, staðan 4-6 fyrir Flensburg.

Það var fljótlega eftir tíundu mínútu sem Björgvin Páll vaknaði í marki Valsmanna og kom liðinu meira á bragðið með nokkrum frábærum vörslum, að sama skapi gekk Valsmönnum vel að finna Arnór Snæ, Stiven Tober og Magnús Óla fram á við.

Staðan að loknum tuttugu mínútum var þó enn í vil Flensburg, 9-11. Þrátt fyrir að Flensburg hafi alltaf verið skrefi á undan í markaskorun í fyrri hálfleik hleyptu Valsmenn gestunum aldrei langt frá sér og spiluðu á stórum köflum frábæran handbolta.

Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var 16-18, Flensburg í vil

Atkvæðamestur í markaskorun í liði Vals í fyrri hálfleik var Arnór Snær Óskarsson með fjögur mörk, honum á eftir fylgdu þeir Stiven Tober Valencia, Magnús Óli Magnússon og Benedikt Gunnar Óskarsson allir með þrjú mörk hver.

Það voru hins vegar leikmenn Flensburg sem mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og á fyrstu tíu mínútum hans náðu gestirnir að teygja forskot sitt úr tveimur mörkum upp í fjögur mörk.

Forskot gestanna frá Þýskalandi jókst eftir því sem leið á síðari hálfleikinn og tíu mínútum fyrir leikslok stóð munurinn milli liðanna í sex mörkum, Flensburg í lið.

Teitur Örn Einarsson fór mikinn í liði Flensburgar, var markahæsti leikmaður liðsins í leiknum og gerði samlöndum sínum í Val erfitt fyrir með sjö mörkum.

Svo fór að Valsmenn náðu ekki að brúa forskotið fyrir leikslok sem Flensburg hafði náð að skapa sér. Þýska liðið fór af hólmi með fimm marka sigur, 32-37 og tvö stig.

Flensburg er því eitt á toppi B-riðilsins með tveggja stiga forystu á Val og Pays d'Aix sem sitja í 2. og 3. sæti. Fyrsta tap Vals í Evrópudeildinni þetta tímabilið staðreynd.

Markahæstir í liði Vals voru Benedikt Gunnar Óskarsson með 9 mörk, Stiven Tober Valencia með sex mörk og Arnór Snær Óskarsson með 5 mörk.