„Í sjálfu sér er ég löngu kominn yfir svekkelsið, það hefði í raun komið mér meira á óvart ef hlaupið hefði farið fram miðað við viðbrögðin á heimsvísu við þessum faraldri,“ sagði Pétur Ívarsson, maraþonhlaupari sem var skráður í hlaupið í Tókýó í samtali við Fréttablaðið.

Hlaupið í Tókýó er hluti af sex stærstu hlaupum árs hvers í maraþoni ásamt maraþoninu í Berlín, London, New York, Chicago og Boston. Pétri vantar aðeins maraþonið í Tókýó til að vinna sér inn titilinn sex stjörnu sigurvegari, að hafa klárað öll sex hlaupin.

„Ég er alltaf á fullu með ákveðin markmið í sjónmáli. Ég tek þátt í hlaupinu í London og er með háleit markmið fyrir það hlaup. Það mætti því segja að Tókýó var hluti af undirbúning þess ásamt því að klára sjötta maraþonið í þessari seríu.“

Þrátt fyrir allt var Pétur nokkuð brattur og sagðist spenntur að fá tækifæri að skoða borgina betur í ljósi þess að ekki færi jafn mikill tími í undirbúning.

„Þetta verður aðeins öðruvísi ferð en samkvæmt fyrstu áætlun. Í staðin fyrir að hlaupa maraþon og taka endurhæfingu eftir það mun ég bara æfa vel þarna úti, skoða borgina og njóta. Mínir nánustu eru auðvitað svekktir fyrir mína hönd en ég fæ tækifæri að njóta með konunni minni í staðin,“ sagði Pétur enn fremur og hélt áfram:

„Skipuleggjendur hlaupsins ætla að vera svo elskuleg að senda okkur allt, bolinn, hitateppið og regnjakkann þrátt fyrir ákvörðunina. Það verður góður minningagripur.“

Aðspurður sagðist Pétur hvergi af baki dottinn og stefndi á að taka þátt á næsta ári.

„Jájá, það verður öðruvísi ferð. Þá fer maður bara einsamall til að hlaupa til að ljúka þessum áfanga.“