Eitt verst geymda leyndarmál handboltasamfélagsins, það er vistaskipti íslensku landsliðsmannanna Janusar Daða Smárasonar, Sigvalda Björns Guðjónssonar og fjögurra norska landsliðsmanna til Kolstad, var opinberað í gær.

Þar með hefst vegferð forráðamanna Kolstad í átt til þess gera liðið að besta liði Noregs og einu af því besta í Evrópu fyrir árið 2024. Janus Daði mun mæta til Þrándheims næsta sumar og er hann spenntur fyrir komandi tímum hjá félaginu.

„Það er mjög þægileg tilfinning að þetta sé komið upp á yfirborðið þar sem að þetta hafði kvisast út og var orðið mig illa geymt leyndarmál. Svo er gott að sjá að þetta pússluspil hafi gengið upp og nýr kafli sé handan við hornið,“ segir Janus Daði um verðandi vistaskipti.

„Að einhverju leyti má líkja þessu við tíma minn hjá Álaborg þar sem farið var upp um nokkur þrep hvað metnað og umgjörð varðar þau þrjú og hálft ár sem ég var það.

Hins vegar ekki alveg sambærilegt þar sem Álaborg var á þeim rótgrónari klúbbur en Kolstad er þessa stundina og byggði á fastari stoðum,“ segir leikstjórnandinn sem varð þrisvar sinnur danskur meistari og einu sinni bikarmeistari á meðan hann lék á danskri grundu.

„Ég er spenntur fyrir því að taka þátt í að móta lið frá grunni og eiga stóran þátt í því að reyna að vinna að því að ná þeim háleitu markmiðum sem félagið hefur sett.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að í kjölfar þess að félag setur svona markmið fram þá eru margir sem vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að það gangi ekki upp. Það er einnig spennandi að komast inn á handboltavöllinn aftur og geta beitt mér af fullum krafti,“ segir hann.

Janus Daði, sem er leikmaður þýska efstudeildarliðsins Göppingen, kom til Íslands í morgun en hann kemur til móts við liðsfélaga sína hjá landsliðsinu sem hefur næstu daga undirbúning sinn fyrir lokakeppni EM 2022 með æfingum.

Janus Daði vonast til þess að verða klár í slaginn með íslenska liðinu á EM í janúar.
Fréttablaðið/EPA

„Það er gott að hafa komið þessum félagaskiptum frá áður en ég kom til Íslands og ég hlakka til að hitta félagana í landsliðinu og fara í endurhæfingu á öxlinni með sjúkraþjálfurum landsliðsins. Staðan á öxlinni er þannig að ég er alveg leikhæfur en þyrfti þá að hvíla á milli leikjatarna og gæti ekki beitt mér á fullu.

Ég fann það í upphafi tímabilsins að öxlin var ekki klár í fullan kontakt og réði ekki við álagið þó að að gæti alveg spilað. Það var því tekin ákvörðun um að styrkja öxlina og miða svo að því að vera orðinn til í leikjatörnina hjá Göppingen í desember og svo lokakeppni EM í janúar.

Leikstíllinn minn er þannig að ég er mikið í návígjum bæði í vörn og sókn. Af þeim sökum er nauðsynlegt fyrir mig að hafa öxlina í eins góðu standi og mögulegt er þannig að ég geti beitt mér almennilega og spilað marga leiki í röð,“ segir landsliðsmaðurinn.

Ég er spenntur fyrir því að taka þátt í að móta lið frá grunni og eiga stóran þátt í því að reyna að vinna að því að ná þeim háleitu markmiðum sem félagið hefur sett.

„Forráðamenn Göppingen eru ánægðir með að það sé allt komið á hreint hvað framtíð mína varðar. Ég mun gera allt sem í valdi stendur til að klára þetta hálfa ár hjá Göppingen með sóma eftir að hafa glímt við of mikil meiðsli hingað til á þeim tíma sem ég hef verið í herbúðum félagsins.

Það var vilji til þess að framlengja samninginn við mig hjá Göppingen ern nú hafa þeir góðan tíma til að finna eftirmann minn,“ segir hann um framhaldið.

„Það verður gaman að endurnýja kynnin við Sander Sagosen en við spiluðum saman í hálft ár hjá Álaborg. Þarna er einn besti leikmaður heims að koma aftur í heimabæinn sinn og það er vægast sagt mikil spenna fyrir endurkomu hans.

Fyrir mig sem handboltamann er tilhlökkunarefni að spila með leikmanni í hans gæðaflokki. Þá er Sagosen leikmaður sem krefst mikils af bæði sjálfum sér og samherjum sínum. Í þannig umhverfi líður mér best og vil vera í.

Það er mikil vinna fram undan hjá okkur sem eru koma til Kolstad að láta draumana verða að veruleika og ég hlakka til,“ segir Janus Daði enn fremur um næstu misserin.