Svo virðist sem sama stef verði í deildinni og síðasta sumar fyrir utan tvo nýja far­þega í topp­bar­áttunni úr Ár­bænum og frá Sel­fossi.

Valur trónir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sann­færandi sigra gegn KR, Þór/KA og ÍBV og nauman sigur á móti ný­liðum Þróttar. Svo virðist sem vel hafi gengið að fylla það stóra skarð sem Margrét Lára Viðars­dóttir skildi eftir sig. Þar skiptir mestu máli að Hlín Ei­ríks­dóttir heldur upp­teknum hætti frá því í fyrra og hefur jafn­vel bætt sig á milli ára.

Þá er Elín Metta Jen­sen enn á skotskónum en hún kemur í feikna­formi inn í sumarið. Elín Metta setti tóninn með því að skora fyrsta mark mótsins og hefur síðan skorað sjö mörk. Hlín kemur næst henni á listanum með fjögur mörk líkt og Berg­lind Björg Þor­valds­dóttir hjá Breiða­bliki en þessir þrír leik­menn voru jafnir marka­hæstir í deildinni síðasta haust.

Berg­lind Björg kom til Ís­lands frelsinu fegin eftir að hafa verið í ein­angrun í nokkrar vikur á Ítalíu í kjöl­far þess að hafa byrjað vel með AC Milan. Hún hefur leikið einum leik færri en Elín Metta og Hlín en þrenna hennar í glæsi­legum 6-0 sigri gegn KR áður en Blikar voru settir í sótt­kví lyfti henni upp marka­listann.

Breiða­blik er með gríðar­lega vel skipu­lagt lið undir stjórn Þor­steins H. Hall­dórs­sonar sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Það sýndi sig í leiknum gegn Sel­fossi en Kópa­vogs­liðið á enn eftir að fá á sig mark í deildinni í sumar. Svein­dís Jane Jóns­dóttir hefur komið vel inn í liðið en auk þess að ógna með krafti sínum og hraða tekur hún löng inn­köst sem eru gott vopn í sóknar­leik liðsins.

Fylkir hefur náð að búa til spennandi lið sam­sett úr sterkum kjarna heima­kvenna í bland við unga og efni­lega leik­menn sem hafa staðið sig vel með yngri lands­liðum Ís­lands. Fylkir minnti hressi­lega á sig í um­ræðunni um bestu lið landsins með sigri gegn Sel­fossi en liðið var þar að fylgja eftir góðum árangri sínum frá undir­búnings­tíma­bilinu.

Berg­lind Rós Ágústs­dóttir sem verð­launuð var fyrir góða frammi­stöðu sína í vetur með sæti í A-lands­liðinu hefur verið frá­bær í hjarta varnarinnar hjá liðinu. Þá hefur Þór­dís Elva Ágústs­dóttir leikið afar vel það sem af er sumri og Bryn­dís Arna Níels­dóttir er svo virki­lega spennandi leik­maður sem gaman verður að fylgjast með. Sel­fyssingar sem komu kok­hraustir inn í mótið hafa náð sér á strik eftir erfiða byrjun. Stíflan við marka­skorun brast þegar liðið lagði FH að velli í þriðju um­ferðinni og flóð­gáttir opnuðust í 4-1 sigri gegn Stjörnunni í vikunni. Þar komst Dag­ný Brynjars­dóttir, sem miklar væntingar voru gerðar til, á blað með tveimur mörkum og Magda­lena Anna Reimus setti hin tvö.

Þór/KA mætti með mikið breytt lið til leiks í sumar en mexí­kósk á­hrif liðsins eru horfin á braut og þurfti það að finna í sínum her­búðum leik­menn til að bera uppi sóknar­leikinn eftir brott­hvarf Stephany Mayor. Hulda Ósk Jóns­dóttir hefur gefið í og verið skapandi og skil­virk í sínum leik.

Nokkrir leik­menn hafa komið með ferska vinda inn í deildina en má þar nefna kant­manninn Mary Alice Vignola hjá Þrótti og hina bráð­efni­legu Snæ­dísi Maríu Jörunds­dóttur sem er 16 ára gömul og skoraði sitt fyrsta deildar­mark með meista­raf lokki í tapinu gegn Sel­fossi.