Fyrsti maðurinn var handtekinn í gær fyrir skilaboð til Marcus Rashford og hefur lögreglan í Bretlandi nú hneppt þrjár til viðbótar í gæsluvarðhald.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Bretlandi kemur fram að rannsókn standi yfir á þúsundum ummæla víðsvegar frá Bretlandi og er því von á fleiri handtökum á næstunni.

Eftir að leikmönnunum þremur brást bogalistin á vítapunktinum var ljóst að Ítalir myndu hafa betur í úrslitaleiknum á Evrópumótinu.

Undir eins fór að bera á rasískum skilaboðum á samskiptamiðlum leikmannana og tókst samskiptamiðlunum ekki að koma í veg fyrir aragrúa af skilaboðum um kynþáttaníð.

Undanfarna mánuði hefur enska deildarkeppnin, félög og leikmenn kallað eftir hertum aðgerðum til að bregðast við slíkum skilaboðum án árangurs.

Boris Johnson, forsætisráherra Bretlands, hefur þegar fordæmt þessi skilaboð og rætt mögulegar aðgerðir til að þrýsta á samskiptamiðla að bregðast við kynþáttaníði á sínum miðlum.