Evrópumótið í knattspyrnu hefst á Englandi í dag með opnunarleik Englands og Austurríkis á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Flautað verður til leiks klukkan 19:00. Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu leika fyrsta leik sinn á mótinu gegn Belgíu á sunnudaginn.

Uppselt er á opnunarleik kvöldsins á Old Trafford þar sem yfir 73 þúsund manns munu fylla leikvanginn.

Þetta er í þrettánda skipti sem Evrópumótið í knattspyrnu kvenna megin er haldið. Enska landsliðið kemur með mikla pressu á bakinu í fyrsta leikinn þar sem liðið er á heimavelli.

Þá spilar liðið undir stjórn hinnar sigursælu Sarinu Wiegman sem vann mótið með hollenska landsliðinu árið 2017 en Holland var þá á heimavelli líkt og Englendingar núna.

Ekki er til mikils ætlast af Austurríki á mótinu en liðið kom þó á óvart á EM 2017 með því að komast í undanúrslit keppninnar. Þá hefur liðið staðið í Englandi áður.

Þessi lið mættust á Englandi í undankeppni HM í nóvember fyrir nokkrum mánuðum síðan. Englendingar fóru þá með 1-0 sigur af hólmi.

Enska landsliðið kemur með mikið sjálfstraust inn í Evrópumótið, hefur ekki tapað leik í síðustu 14 leikjum

Stolt stund fyrir ensku þjóðina

Leah Williamson, fyrirliði enska landsliðsins er stolt af því að bera fyrirliðabandið á mótinu.

,,Þetta er stund sem ég mun muna eftir að eilífu. Við höfum lagt mjög hart að okkur í undirbúningi fyrir mótið síðastliðnar vikur og vitum hversu stór stund er framundan."

,,Við vitum hvers er ætlast af okkur og tökum pressunni fagnandi. Við erum ekki vélmenni, það munum finna fyrir þessu og gerum okkur grein fyrir væntingunum en leikmannahópurinn er bara spenntur fyrir verkefninu framundan.,