Badmintonspilarinn Kári Gunnarsson mun í dag hefja leik á Reykjavíkurleikunum en þar með hefur hann vegferð sína í átt til þess að komast á Ólympíuleikana sem fram í Tókýó næsta sumar. Kári mun keppa á átta mótum víðs vegar um heiminn næstu mánuðina en hann þarf að hífa sig upp heimslistann til þess að tryggja sér farseðilinn til Japan. Það kemur í ljós í maí næstkomandi hvort hann verður nógu ofarlega til þess að ná markmiði sínu.

„Ég er að koma úr smá pásu frá því að keppa á mótum en ég hef verið í æfingafasa í Danmörku. Á síðasta ári flutti ég mig frá því að æfa á Spáni með einum besta badmintonspilar í æfingamiðstöð í Danmörku þar sem nokkrir af sterkustu badmintonspilurum Evrópu koma saman og æfa. Fram undan eru átta mót hér og þar um heiminn. Sem dæmi um mótsstaði eru Íran, Perú, Úkraína og Pólland," segir Kári í samtali við Fréttablaðið um komandi verkefni.

„Ástæða þess að ég fer á svona marga mismunandi staði er að þarna eru þau mót sem gefa mér flest stig á heimslistanum og það eykur möguleika mína að komast til Tókýó að standa mig vel þar. Þetta er ekki ákjósanlegasta ferðaplanið og ég er sem dæmi á einum tímapunkti að fara að keppa í Lima í Perú á sunnudegi og á svo að vera mættur til Úkraínu á þriðjudegi. Það er ekki það sem maður myndi helst kjósa en svona er þetta bara," segir hann enn fremur um næstu mánuðina hjá sér.

Fagnar umræðu um bætta stöðu afreksíþróttafólks

„Baráttan um að koma mér til Tókýó er í fínum farvegi og ég er vongóður um að mér takist ætlunarverkið. Það er fínt að byrja vegferðina með því að taka þátt á Reykjavíkurleikunum. Þetta mót gefur mér reyndar ekki mörg stig á heimslistann. Ég þarf að vinna mótið til þess að koma mér eitthvað upp þann lista. Það eru hins vegar sterkir andstæðingar að fara að mæta og þetta er gott tækifæri til þess að sjá hvar ég er staddur eftir æfingatörnina og hvað ég þarf að bæta," segir þessi metnaðarfulli íþróttamaður.

Kári segist vera ánægður með þá umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið um stöðu afreksíþróttafólks á Íslandi. Hann vonast til þess að fjárhagsstaða þeirra og réttindi muni batna í náinni framtíð. Til þess að honum sé kleift að geta keppt á hæsta getustigi og haldið draumi sínum á lífi hefur Kári þurft að leita til velunnara og fyrirtækja í leit að styrkjum. Kári er mjög þakklátur fyrir þá sem hafa stutt hann og séð til þess að hann geti æft af fullum krafti og ferðast um heiminn til þess að keppa á mótum.

„Það væri óskandi að afreksíþróttafólk hefði til dæmis miðstöð í Laugardalnum eða annars staðar þar sem þau gætu æft saman og haft aðgang að mötuneyti fyrir og eftir æfingar. Þar gæti verið til staðar sjúkraþjálfari sem myndi þjónusta afreksíþróttafólkið og annað í þeim dúr. Mér finnst svo jákvætt að það sé komin fram tillaga á Alþingi um launasjóð afreksíþróttafólks sem myndi virka á sama hátt og gildir um listamenn. Það væri mikil réttarbót og mér finnst það rökrétt skref að við fáum greitt fyrir vinnu okkar og getum áunnið okkur lífeyrisréttindi," segir badmintonspilarinn um stöðu mála.