Ísland mætir Liechtenstein á heimavelli í kvöld, tæplega fjórtán árum frá einum versta degi karlalandsliðsins þegar Ísland steinlá gegn Liechtenstein á útivelli með þjálfarateymið í hlutverkum leikmanna.

Eftir að Ísland byrjaði undankeppni EM 2008 af krafti með sigri á Norður-Írlandi á útivelli var fátt markvert sem átti sér stað í næstu ellefu leikjum þar sem uppskeran var fimm stig.

Botninum var náð í október 2007 en stuttu síðar sagði Eyjólfur Sverrisson, þáverandi þjálfari landsliðsins, upp störfum. Ísland tapaði 2-4 gegn Lettum á heimavelli og 0-3 gegn Liechtenstein í þeim mánuði.

Íþróttasíða Fréttablaðsins daginn eftir leikinn gegn Liechtenstein þar sem landsliðsþjálfarinn talaði um að liðið hefði verið niðurlægt.
Mynd/Fréttablaðið

Í Fréttablaðinu daginn talaði Eyjólfur um að frammistaðan hefði verið skelfileg og að liðið hefði verið niðurlægt. Það hafi um leið ekkert í leik íslenska liðsins átt skilið hrós.

Í viðtölum eftir leik viðurkenndi Eiður Smári Guðjohnsen sem bar fyrirliðabandið þetta kvöld að upplifunin hefði verið sú versta sem hann hefði tekið þátt í með íslenska landsliðinu.

Óskar Ófeigur Jónsson, blaðamaður Fréttablaðsins í Vaduz þetta umrædda kvöld, talaði um þennan tímapunkt sem einn versta dag íslenskrar knattspyrnusögu.

„Miðvikudagsins 17. október 2007 verður minnst sem eins svartasta dags í sögu íslenskrar knattspyrnu. Þetta er dagurinn þar sem íslenska landsliðið var niðurlægt af einni minnstu knattspyrnuþjóð heims, Liechtenstein,“ skrifaði Óskar og sagði að Ísland væri komið í kjallara evrópskrar knattspyrnu með San Marínó, Færeyjum og Liechtenstein.