Stjórn Íþróttasambands fatlaðra hefur valið þá fjóra einstaklinga sem verða fulltrúar Íslands á Parlaympics í Tokyo í ágúst- og septembermánuði.

Frjálsíþróttafólkið Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Patrekur Andrés Axelsson frá FH og svo sundfólkið Már Gunnarsson frá ÍRB og Thelma Björg Björnsdóttir frá ÍFR. Öll fjögur eru á meðal þeirra sem með árangri sínum áunnu Íslandi þessi fjögur sæti við leikana.

Leikarnir fara fram dagana 24. ágúst – 5. september en þess má geta að enn er von um að Ísland geti átt fleiri keppendur við leikana! Í júlíbyrjun skýrist það hvort bogfimimaðurinn Þorsteinn Halldórsson nái að skjóta sér leið inn á leikana þegar hann keppir á lokaúrtökumóti fyrir Paralympics í Tékklandi.

Þorsteinn keppti í bogfimi á Paralympics í Ríó de Janeiro í Brasilíu 2016 og varð þá fyrsti bogfimikeppandi Íslands í sögunni. Eins hefur Íþróttasamband fatlaðra þegar lagt inn umsóknir fyrir fleira afreksfólk í ljósi árangurs þeirra og er beðið svara við umsókunum.

Af þeim fjórum keppendum sem valdir hafa verið til verkefnisins eru Bergrún, Már og Patrekur öll að fara að keppa á sínum fyrstu leikum en Thelma Björg synti fyrir Íslands hönd á Paralympics í Río de Janeiro 2016.

Á ýmsu hefur gengið við undirbúning Paralympics í Tokyo vegna heimsfaraldurs COVID-19 og er gert ráð fyrir gríðarlegum öryggiskröfum í Tokyo á meðan leikarnir fara fram. Ljóst er að allur íslenski hópurinn verður orðinn að fullu bólusettur þegar verkefnið hefst, bæði íþróttafólk og starfsfólk.

Fulltrúar Íslands á Parlaympics í Tokyo:

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, FH – frjálsíþróttir

Patrekur Andrés Axelsson, FH – frjálsíþróttir

Már Gunnarsson, ÍRB – sund

Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR – sund