Barcelona staðfesti í gær að leikir kvennaliðs félagsins gegn Bayern og Rosengard, Íslendingaliðunum í D-riðli í Meistaradeild Evrópu fari fram á Nývangi, einum stærsta leikvangi Evrópu.

Barcelona hefur notast við Nývang í stærstu leikjum kvennaliðsins, gegn Real Madrid og Wolfsburg í Meistaradeildinni á síðasta tímabili enda tekur hinn völlur kvennaliðsins aðeins sex þúsund í sæti.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir mæta því á Nývang þann 24. nóvember næstkomandi og Guðrún Arnardóttir 21. desember.

Sveindís Jane Jónsdóttir varð fyrsta íslenska konan til að leika á Nývangi á síðasta ári þegar Wolfsburg mætti Börsungum í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Kanadíski framherjinn með íslenska ríkisborgararéttinn, Cloe Lacasse, fær ekki að spreyta sig á Nývangi að þessu sinni með liði sínu, Benfica.