Álitsgjafinn Freyr Alexandersson var aðstoðarþjálfari Eriks Hamrén, og í kringum landsliðið sem njósnari og leikgreinir í tíð Heimis Hallgrímssonar.

Kynslóðaskipti landsliðsins halda áfram en á nokkrum mánuðum hafa fjórir af þrettán leikjahæstu leikmönnum íslenska karlalandsliðsins, sem áttu stóran þátt í velgengni þess undanfarin ár, tilkynnt að landsliðsferlinum sé lokið. Einn þeirra, Kári Árnason, hefur lagt skóna endanlega á hilluna og Hannes Þór Halldórsson liggur undir feldi með næsta skref ferilsins á 38. aldursári en Ari Freyr Skúlason er áfram samningsbundinn Norrköping og Birkir Már Sævarsson Val. Samanlagt eiga þessir fjórir 353 leiki fyrir Íslands hönd. Þessir f jórir, ásamt Ragnari Sigurðssyni, byrjuðu alla leikina þegar karlalandsliðið komst í fyrsta skiptið á stórmót og komst í átta liða úrslitin á Evrópumótinu 2016. Hlutverk Ara minnkaði í undankeppni HM 2018 þegar Hörður Björgvin Magnússon byrjaði sex leiki og alla leiki Íslands á HM í Rússlandi en Ari var aftur kominn í stærra hlutverk í næstu undankeppni. Fréttablaðið fékk Frey Alexandersson, sem var hluti af þjálfarateymi landsliðsins á HM 2018 og aðstoðarþjálfari í undankeppni HM 2020, til þess að fara stuttlega yfir afrek þeirra með landsliðinu

GettyImages

Hannes Þór Halldórsson
77 leikir
0 mörk
102 mörk fengin á sig
34 sigrar
13 jafntefli
30 töp

„Það er best og viðeigandi að lýsa ferli hans með kvikmyndahandriti, sem væri eins og hálfgerð lygasaga. Þegar ég kynnist honum er hann markmaður í yngri flokkum Leiknis og varamarkmaður í annarri deild en hann verður síðan besti markmaður Íslandssögunnar sem spilar í lokakeppni EM og HM. Mín upplifun frá því að vinna með honum innan landsliðsins, var hvað hann hafði mikið vægi innan leikmannahópsins. Hannes veitti gott jafnvægi á milli þeirra sem voru að spila á hæsta stiginu og annarra leikmanna. Hann var ótrúlega mikilvægur fyrir jafnvægi leikmannahópsins. Hann var mikill leiðtogi og mikilvægur í klefanum, tók skotum vel en var um leið duglegur að skjóta til baka," segir Freyr.

Kári Árnason
90 leikir
6 mörk
6 stoðsendingar
32 sigrar
20 jafntefli
38 töp

„Held að flestir þjálfarar séu sammála um að það hafi verið algjör draumur að vinna með Kára. Hann hélt mönnum á tánum, bæði samherjum og þjálfurum. Ef það var eitthvað sem var ekki rétt, þá lét Kári mann vita og lagði fram sínar hugmyndir. Hann var ekkert bara að kvarta til að kvarta heldur yfirleitt með lausnir til staðar. Það kæmi mér ekkert á óvart ef hann myndi láta að sér kveða áfram í knattspyrnuheiminum enda getur hann lagt margt gagnlegt til málanna,“ segir Freyr um miðvörðinn. „Inni á vellinum var þetta einn mesti stríðsmaður sem hægt er að finna og var tilbúinn að fórna sér í hvaða aðstæðum sem er. Hann stóð alltaf fyrir sínu enda frábær í að lesa leikinn og öflugt vopn í föstum leikatriðum. Það voru einhverjir með áhyggjur af hraðanum, örugglega í tíu ár, en hann lét aldrei nappa sig. Hann sá til þess að aðrir myndu loka réttu svæðunum svo að hann myndi ekki líta illa út," segir Freyr.

Ari Freyr Skúlason
83 leikir
0 mörk
6 stoðsendingar
29 sigrar
8 jafntefli
36 töp

„Ari er frábær knattspyrnumaður sem var mjög gaman að vinna með. Hann hefur ákveðið hugarfar sem suma knattspyrnumenn skortir. Alveg sama hversu stórt verkefnið var, þá var Ari tilbúinn í slaginn. Þegar mótherjarnir tefldu fram einhverjum stórum kantmanni til að pönkast á litla bakverðinum okkar, þá hló hann að því og tók því fagnandi,“ segir Freyr, spurður um Ara. „Þjálfarateymið þurfti sjaldan að bregðast við því hann tókst á við hvaða áskorun sem var sem mótherjarnir lögðu fyrir hann og það reyndist ekkert verkefni of stórt fyrir hann. Hann er stríðsmaður, mikill karakter og um leið góður fótboltamaður sem gat leyst hvaða stöðu sem er og verkefni sem er;" segir Freyr.

Birkir Már Sævarsson
103 leikir
3 mörk
5 stoðsendingar
35 sigrar
20 jafntefli
48 töp

„Líkt og hjá Hannesi ná kynni mín af Birki lengra aftur. Fyrstu kynni mín af Birki eru úr háskólanum á Laugarvatni þar sem hann er varamaður í Val og að biðja um hjálp í ræktinni því hann þyrfti að bæta snerpuna. Hann þurfti svo ekkert á því að halda, þurfti að þyngjast aðeins,“ segir Freyr. „Hann er frábær einstaklingur og eins og Hannes reyndist Birkir mjög mikilvægur fyrir valdajafnvægi innan landsliðshópsins. Birkir var þögli stríðsmaðurinn sem var alltaf hægt að stóla á. Hann lét aldrei vaða yfir sig, hvorki innan né utan vallar af mótherja né samherja. Um leið voru aldrei nein vandræði í tengslum við hann, ég man þegar hann var að hrökklast út úr hópnum í undankeppni EM 2020 hvað mér fannst það erfitt en hann tæklaði það á sinn hátt, af mikilli fagmennsku. Hann er algjör eðalmaður," segir Freyr.