Í gær tilkynnti bandaríska knattspyrnufélagið D.C. United um ráðningu Wayne Rooneys sem tekur við sem nýr þjálfari félagsins. Rooney mun því starfa í Bandaríkjunum næstu misserin en fjölskylda hans mun ekki fylgja honum vestur um haf.

Frá þessu greindi Rooney sjálfur eftir að ráðningin hafði verið gerð opinber en undirstrikaði þó að hann hefði fengið blessun eiginkonu sinnar, Coleen Rooney fyrir því að taka starfið. Ekki er langt síðan Wayne Rooney hætti störfum sem knattspyrnustjóri Derby County á Englandi.

,,Ég ætlaði mér að taka smá pásu eftir að hafa yfirgefið Derby en eftir að umboðsmaðurinn minn hringdi í mig og sagði mér frá áhuga D.C. United. Ég talaði við eiginkonu mína og hún gaf grænt ljós á þetta, þarna væri tækifæri til þess að komast strax aftur inn í leikinn og ég er klár í það," sagði Wayne Rooney eftir að hafa tekið við D.C. United.

Þetta er í annað skipti sem Wayne Rooney verður hluti af D.C. United, hann var áður leikmaður félagsins yfir tvö tímabil. Það kemur lítið á óvart að Coleen Rooney fylgi honum ekki vestur um haf ásamt sonum þeirra en hún hefur áður greint frá því hversu mikla heimþrá hún fékk er hún bjó með Wayne Rooney í Bandaríkjunum á sínum tíma.

,,Hefði konan mín sagt við mig að hún vildi ekki að ég tæki þetta starf að mér þá hefði ég tekið mark á því. Allar stórar ákvarðanir sem ég tek geri ég í samstarfi með eiginkonu minni. Fjölskyldan mín mun verða eftir í Bretlandi en við lítum ekki á það sem vandamál.