Rúnar Alex Rúnarsson segir að fjölskylda hans hafi fengið skelfileg skilaboð á samfélagsmiðlum eftir að markvörðurinn átti slakan leik með Arsenal í tapi gegn Manchester City í enska deildabikarnum í lok árs 2020.

Landsliðsmarkvörðurinn er að snúa aftur til æfinga hjá Arsenal eftir að hafa verið á láni hjá Leuven í Belgíu á síðustu leiktíð. Framtíð hans er þó í óvissu en ekki er ólíklegt að Rúnar verði aftur lánaður út.

Sjálfur segist Rúnar hafa lokað að stórum hluta á samfélagsmiðla sína eftir að hann vissi af áhuga Arsenal. „Um leið og ég vissi af þessum áhuga Arsenal þá breytti ég Instagram-reikningnum mínum þannig að enginn gat kommentað, enginn sem ég þekkti ekki gat sent mér skilaboð því ég vissi bara að þetta var of stórt til þess að geta ráðið við þetta sjálfur. Og ég eyddi Twitter,“ sagði Rúnar Alex í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark.

Rúnar fór nokkuð vel af stað með Arsenal í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á þarsíðustu leiktíð. Svo átti hann hins vegar dapran dag gegn Man City. „Ég varð ekkert var við einhverja umfjöllun nema bara að ég skoða íslenska fjölmiðla og að kærastan mín er að fá einhver viðbjóðsleg skilaboð á Instagram, og mamma mín og pabbi. Það er það eina sem ég fæ að vita og sjá,“ sagði Rúnar um viðbrögð fólks á samfélagsmiðlum.

„Það er alveg hræðilegt að vita það að mamma mín og pabbi séu að fá einhver skilaboð og barnsmóðir mín, versta sem ég veit,“ bætti hann við.

Rúnar segist skilja það vel að stuðningsmenn séu ástríðufullir. Hins vegar geti hann ekki skilið hvað fær menn til að senda skilaboð í þeim dúr sem foreldrar hans og barnsmóðir fengu. „Ég skil ekki að af því einhver gæi í einhverju öðru landi á einhverjum fótboltavelli eigi lélegan leik þá þurfir þú að senda að hann voni að börnin mín fái krabbamein.“