Fjölnir er komið aftur upp í efstu deild á ný eftir 1-1 jafntefli gegn Leikni í dag í 21. umferð Inkasso-deildarinnar sem tryggði Fjölnismönnum eitt af efstu tveimur sætunum.

Jafntefli dugði Fjölni gegn Leikni R. sem hefur verið á miklu skriði undanfarnar vikur og blandað sér í baráttuna um eitt af efstu tveimur sætunum.

Fjölnismenn komust yfir stuttu fyrir leikslok en Breiðhyltingar jöfnuðu strax í næstu sókn. Reyndist það síðasta mark leiksins.

Á sama tíma tókst Gróttu að vinna Njarðvík 2-1 og fella Njarðvíkinga um leið úr Inkasso-deildinni. Með sigrinum eru Seltirningar komnir langleiðina upp í efstu deild.

Grótta er með þriggja stiga forskot á Leikni fyrir lokaumferðina þegar Grótta tekur á móti Haukum á sama tíma og Leiknir mætir Fram.

Spennan er heldur meiri á botni deildarinnar þar sem Haukar, Afturelding, Magni og Þróttur R. gætu öll fallið í lokaumferðinni.

Fyrir lokaumferðina um næstu helgi er Þróttur R. í fallsæti, stigi á eftir næstu liðum en mætir Aftureldingu í lokaumferðinni.