Fæstir eiga von á því að nýliðar Fjölnis geti staðið í hinu ógnarsterka liði KR þegar liðin mætast í Dominos-deild karla í kvöld en Fjölnismenn hafa áður skellt ríkjandi Íslandsmeisturum KR í upphafi móts.

Fjölnismenn unnu síðasta leik nokkuð sannfærandi, 94-69 gegn hinum nýliðunum í Þór Ak. en ljóst er að verkefnið verður mun erfiðara í kvöld.

Sexfaldir meistarar KR mæta þá í Grafarvoginn í leit að þriðja sigrinum í röð í upphafi tímabilsins.

Fyrir átta árum síðan mætti KR í sama hús og missti leikinn óvænt úr höndum sér á lokamínútum leiksins gegn spræku liði Fjölnis. Skýrsluna úr þeim leik má sjá hér.

Í liði KR þann daginn mátti finna Kristófer Acox, Björn Kristjánsson og Finn Atla Magnússon sem eru enn með liðinu í dag ásamt Helga Má Magnússyni sem stýrði liðinu þann daginn ásamt Martini Hermannssyni og fleiri góðum

Í liði Fjölnis var annar framtíðar landsliðsbakvörður í Ægi Þór Steinarssyni og núverandi þjálfari Keflavíkur, Hjalti Þór Vilhjálmsson ásamt fjölmörgum leikmönnum sem eru enn í deildinni í dag.