Ísland mætti Armeníu í undankeppni HM og gerði 1-1 jafntefli. Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði mark Íslands í leiknum Kári Kristján tók til máls á Facebook til að skamma íslensku leikmennina fyrir að syngja ekki með þjóðsöngnum. ,Kann engin helvítis Þjóðsönginn? Og eitt gerpið að japla tyggjó á meðan. Fyrirliðinn eins og stytta! Átakanlegt!," skrifaði Kári á Twitter.

Viðar Halldórsson, háskólaprófessor, skrifaði einnig um þetta á Twitter. ,,Þegar íslensk landslið ná lengst þá einkennast þau ef mikilli ákefð og stemningu. Nýja íslenska landsliðið er skipað efnilegum og flottum fótboltamönnum en skortir þessa liðsstemningu. Fyrsta skref: syngja með þjóðsöngnum. Áfram veginn," skrifaði Viðar.

Birkir sem hefur spilað 102 landsleiki er ekki vanur að syngja. Hann er fyrirliði liðsins og var spurður út í orð Viðars í málinu. „Mér fannst þetta sérstakt, að hann kæmi með þetta. Þetta hefur yfirleitt verið svona að sumir syngja og sumir ekki. Sumir syngja inni í sér, " sagði Birkir á fundi í Laugardalnum í dag.

Birkir telur að Viðar hafi farið yfir strikið. „Hver ákveður hvernig hann vill gera þetta. Mér fannst þetta fara yfir strikið hvernig hann orðaði þetta. Alir hafa samt leyfi á sínum skoðunum," sagði fyrirliðinn.

Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi tók þá til máls og sagði að fólk gæti slakað á, Birkir hefði hingað til ekki sungið og það með 102 landsleiki á bakinu.

Arnar Viðarsson þjálfari liðsins sagði umræðuna furðulega. ,,Ef það er verið að tala um andleysi þá er ég alls ekki sammála því. Ég held að liðsandinn sé mjög góður í hópnum. Það er mjög sérstakt að fólk utan hóps tali um það sem er að gerast innan hóps," sagði Arnar.