Ísland vann fyrri leikinn gegn Austurríki í umspilinu fyrir HM 2023 34-30 og leiða Strákarnir okkar því með fjórum mörkum fyrir seinni viðureign liðanna á Íslandi um helgina.

Ísland var skrefinu á undan allan leikinn og leiddi frá fyrstu mínútu þótt að Austurríkismenn hafi aldrei gefist upp.

Seinni leikur liðanna fer fram á Ásvöllum á laugardaginn þar sem kemur í ljós hvort að Ísland verði meðal þátttökuþjóða á HM í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári.

Liðin skiptust á mörkum í upphafi leiks og áttu markmenn liðanna erfitt uppdráttar. Íslenska liðið var með frumkvæðið en Austurríki svaraði iðulega um hæl.

Á síðustu tíu mínútum seinni hálfleiks virtust Strákarnir okkar vera að hrista Austurríkismenn frá sér og leiddi Ísland með fimm mörkum í hálfleik 18-13.

Það sama var upp á teningunum í upphafi seinni hálfleiks og var Ísland sjö mörkum yfir þegar seinni hálfleikur var hálfnaður en þá hrökk austurríska sóknin aftur í gang.

Austurríki skoraði sjö mörk gegn einu á sjö mínútna kafla og var því eins marka munur þegar skammt var til leiksloka áður en Íslendingar settu aftur í gír og gerðu út um leikinn með góðum lokakafla.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með ellefu mörk og Óðinn Þór Ríkharðsson stóð sig vel í fjarveru Sigvalda Björns Guðjónssonar í vinstra horninu með sjö mörk.