Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tjáði sig við fjölmiðla um framtíðarplön sín en hann er samningsbundinn hjá félaginu til ársins 2024. Klopp gerði Liverpool að enskum meisturum á dögunum en hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu á meðan hann hefur verið í brúnni hjá liðinu auk Ofurbikars Evrópu og heimsmeistaramóts félagsliða.

„Ég mun á einhverjum tímapunkti snúa aftur til Þýskalands og eins og staðan er það eftir fjögur ár. Mér finnst líklegt að ég muni flytja til Mainz og njóta lífsins þegar samningur minn við Liverpool lýkur eftir fjögur ár," segir Klopp um framhaldið hjá sér.

Þýska blaðið Bild telur að plön séu uppi um að Klopp taki við stjórnartaumunum hjá þýska karlalandsliðinu í knattspyrnu árið 2024 en Joachm Löw stýrir þýska liðinu eins og sakir standa.

Klopp hefur stýrt Liverpool síðustu fimm árin en hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir að hafa bundið enda á 30 ára eyðmimerkurgöngu liðsins og tryggt liðinu enska meistaratitilinn á dögunum.