Talið er að 40 milljónir Kínverja hafi fylgst með leik Espanyol og Villarreal í spænsku úrvalsdeildinni í sjónvarpi. Til samanburðar horfðu aðeins 177.000 Spánverja á leikinn.

Áhugi Kínverja á spænska boltanum hefur aukist snarlega eftir að Espanyol festi kaup á kínverska framherjanum Wu Lei frá Shanghai SIPG. Katalóníufélagið er í eigu kínverska auðkýfingsins Chen Yansheng. 

Lei þreytti frumraun sína með Espanyol gegn Villarreal um helgina. Hann lék síðustu tólf mínúturnar. Leikurinn fór 2-2.

Eftir komu Lei hefur fylgjendum Espanyol á samfélagsmiðlum fjölgað til mikilla muna. Þá hafa treyjur með nafni Lei selst grimmt í Kína. BBC greinir frá.

Lei, sem er 27 ára, skoraði 27 mörk í 29 deildarleikjum þegar Shanghai SIPG varð kínverskur meistari á síðasta tímabili. Hann hefur leikið 63 leiki fyrir kínverska landsliðið og skorað 15 mörk.