Laun í knattspyrnudeild Breiðabliks jukust um rúmar 60 milljónir milli ára, knattspyrnudeild FH tapaði tæpum 24 milljónum, KR fékk tíu milljónum meira í miðasölu en félagið gerði ráð fyrir og bikarmeistarar Víkings töpuðu tæpum 300 þúsundum þar sem laun ruku upp um 43 prósent milli ára og snerta nú 100 milljóna múrinn. Ársreikningar félaga í efstu deild runnu inn á heimasíður félaganna fyrir skemmstu þar sem ýmsar tölur og texti vekur athygli.

Töluvert hefur verið rætt og ritað um stöðu félaga í efstu deild og barma forkólfar félaganna sér nú yfir slæmri stöðu vegna COVID-19 faraldursins. Staðan var þó orðin slæm löngu fyrir hann.

Félög í efstu deild greiddu alls 1,6 milljarða í laun og er HK ekki tekið með þar sem félagið sundurliðar ekki laun. Launakostnaður hjá sjö félögum í efstu deild jókst milli ára. Blikar greiða langmest í laun og er eina liðið sem fer yfir 300 milljónir. Tölurnar eru þó ekki aðeins fyrir meistaraflokkinn heldur alla knattspyrnudeildina sem er ein sú fjölmennasta á landinu. Greinilegt er þó að Blikar eyða vel í sína leikmenn því í lok síðasta árs sagðist Thomas Mikkelsen, framherji liðsins, vera hér hjá á landi vegna peninganna enda fengi hann betur borgað hjá Blikum en þegar hann var í dönsku úrvalsdeildinni.

Staða Skagamanna er nánast sérkapítuli enda tapaði liðið heilum 62 milljónum á síðasta ári. Nýr framkvæmdastjóri ÍA, Geir Þorsteinsson, skeiðaði fram á ritvöllinn og hvatti Skagamenn nær og fjær til að standa saman. „Nú hefur COVID-19 faraldurinn breytt rekstrarforsendum knattspyrnufélaga með áður óþekktum hætti. Frá síðari hluta janúar á þessu ári hafa hlaðist upp óveðursský í rekstri félagsins en með samkomubanni hafa rekstrarhorfur knattspyrnufélaga versnað til mikilla muna þannig að í reynd hefur ástandið á nokkrum vikum orðið kolsvart.“

Páll Kristjánsson, nýr formaður knattspyrnudeildar KR, sagði í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport í vikunni, að í hinum fullkomna heimi myndu íþróttafélögin borga 25 prósent af samningum, og ríkið kæmi inn með 75 prósent. „Umræðan verður alltaf þannig um leið og menn fara að tala um laun hjá karlmönnum í fótbolta, körfubolta eða handbolta, að hún verður mikið viðkvæmari. Eins og eitthvað jarðsprengjusvæði. Menn þora ekki að upplýsa um laun og það er ákveðin leyndarhyggja yfir þessu, sem ég skil reyndar ekki,“ sagði Páll í settinu á Stöð 2.

Það er himinn og haf á milli ársreikninga Breiðabliks og ÍA. Blikar högnuðust um 14 milljónir eftir 15 milljón króna tap árið áður. Skagamenn töpuðu 62 milljónum í fyrra en högnuðust um 48 milljónir árið áður. Fréttablaðið/Valli

Valsmenn runnu á rassinn síðasta sumar í karlafótboltanum og það eru ekki endilega tölurnar í ársreikningi félagsins sem vekja athygli, en knattspyrnudeildin skilaði 16 milljóna króna hagnaði sem var mesti hagnaður liða í efstu deild. Valsmenn enduðu í sjötta sæti sem var langt frá þeim væntingum sem til liðsins voru gerðar. Miðasala fór niður um fjórar milljónir og útsendingarréttur um þrjár og hálfa af þeim sökum. Aðrar rekstrartekjur hrundu um tæpar 50 milljónir en laun og launatengd gjöld fóru þó upp um 46 milljónir milli ára.

Valsarar hafa tekið á sig launalækkun út árið og var það sagt vegna ástandsins nú en ekki vegna árangurs síðasta árs.

Aðstaða skiptir máli

KR varð Íslandsmeistari með yfirburðum í fyrra og spilaði glimrandi fótbolta. KR gerði ráð fyrir að fá 11 milljónir í tekjur af miðasölu en fékk 19,5 milljónir. Fylkir fékk 13 milljónir í aðgangseyri en félagið tók í notkun glæsilegan gervigrasvöll með yfirbyggðri stúku og umgjörðin var öll til fyrirmyndar. Það skilaði 77 prósenta aukningu í miðasölu milli ára. Stjörnumenn fengu átta og hálfa milljón af miðasölu en tæpar 14 milljónir árið áður sem er 41 prósents munur. Stjörnumenn eru stórhuga vegna umgjarðarinnar fyrir komandi ár og vilja breyta Stjörnutorgi í eitt glæsilegasta svæði íþróttanna. Valsmenn fengu 12 milljónir í aðgangseyri miðað við 16 milljónir þegar liðið varð meistari.

Víkingar fengu 10,5 milljónir í miðasölu miðað við 5,7 árið áður. Munar þar mestu að Bikarkeppnin skilaði félaginu 5,1 milljón í tekjur en Íslandsmótið skilaði 4,6 milljónum. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, skilaði bikarmeistaratitli og þó að úrslitin væru ekki alltaf hagstæð í deildinni fékk liðið mikið hrós fyrir fótboltann sem það spilaði. Það skilaði 84 prósenta aukningu í miðasölu. Víkingar eyddu líka heilum 283 prósentum meira í söluvarning og veitingar. Skemmtilegur fótbolti skilar sér greinilega í kassann þó hann kosti sitt, því Víkingar voru 262 þúsund krónur í mínus. Þótt tekjupóstarnir hafi allir farið upp greiddu þeir um 30 milljónum meira í laun en árið áður og það sem kallað er annar rekstrarkostnaður jókst um 24 milljónir.

Mótin skipta miklu

Þegar skoðað er hvað barna- og unglingamót skila knattspyrnudeildunum miklum tekjum kemur í ljós að Breiðablik ber höfuð og herðar yfir önnur lið. Blikar fengu um 110 milljónir í tekjur fyrir sín mót en Símamótið er eitt stærsta mót landsins ef ekki það stærsta. KA fær 32 milljónir af sínum mótum og Skagamenn fá 30 milljónir.