Alþjóðaólympíunefndin, IOC, tilkynnti í dag drög að lista yfir þær íþróttagreinar sem keppt verður í á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028. Þrjár greinar detta út en nýjustu þrjár greinarnar halda sætinu.

Fyrr á þessu ári var keppt á Ólympíuleikunum í klifri, brimbretti og hjólabretti í fyrsta sinn og eru þau öll á listanum yfir íþróttir á Ólympíuleikunum 2028.

Á sama tíma er búið að fjarlægja hnefaleika, nútímafimmtarþraut og ólympískar lyftingar af listanum. Allar þessar greinar hafa verið hluti af Ólympíuleikunum í um hundrað ár.

Alþjóðasambönd þessarra íþróttagreina fá nú tvö ár til að sannfæra Ólympíunefndina um að þau hafi staðist kröfur Ólympíunefndarinnar um úrbætur til þess að halda sæti sínu á Ólympíuleikunum.

Það vakti mikla reiði fyrr á þessu ári þegar knapi beitti hestinn sinn ofbeldi í nútímarfimmtarþraut á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Varð það til þess að Ólympíunefndin kallað eftir breytingum á greininni til að huga að dýravelferð.

Í tilfelli hnefaleika og ólympískra lyftinga hefur IOC fullyrt að úrslitum hafi verið hagrætt í hnefaleikum af alþjóða hnefaleikasambandinu.

Þá er alþjóðalyftingasambandið sakað um að takast ekki að kveða niður lyfjamisferli meðal þátttakenda.