Í úttekt sem KSÍ gerði á Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði fyrir komandi tímabil kom í ljós gervigrasið er mjög slitið, það eru víða göt á því og viðgerðir sem hefur verið farið í skapa hættu. Fjöldi ljósa var óvirkur, nokkur sæti í stúkunni eru brotin og ekki er nægjanlegur fjöldi sæta í þeim búningsklefum sem tilheyra knattspyrnuhöllinni. Úttektin var gerð af Víði Reynissyni, verkefnastjóra hjá KSÍ, og er hluti af undirbúningi fyrir umsókn Leiknis á Fáskrúðsfirði vegna keppnistímabilsins í sumar.

Leiknir kom öllum á óvart og vann 2. deildina en liðinu var spáð falli fyrir tímabilið af þjálfurum liðanna á fótbolta.net. Liðið endaði með 46 stig, stigi meira en Vestri og tveimur stigum meira en Selfoss. Talað var um eitt af knattspyrnuævintýrum sumarsins.

Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði var vígð 16. september 2006. Höllin er fyrsti yfirbyggði knattspyrnuvöllurinn á Austurlandi. Í bréfi frá formanni knattspyrnudeildarinnar, Magnúsi Birni Ásgrímssyni, til bæjaryfirvalda frá því í september segir að til að taka þátt í 1. deildinni þurfi að spila á velli í flokki C eins og fram kemur í leyfisreglugerð KSÍ.

Til þess að Leiknir fái leikheimild á vellinum í sumar þarf því að leggja nýtt gervigras og er kostnaðaráætlun um 40 milljónir króna. Í bréfi íþrótta- og tómstundafulltrúa til bæjaryfirvalda í janúar kemur fram að tilboðið sé bænum hagstætt því það gengur út á að endurnýta undirlagið, það er púðana undir gervigrasinu, sem og gúmmíkurlið, en viðbótarkostnaður við að endurnýja hvort tveggja hleypur á tugum milljónum króna.

Magnús Björn segir að bæjaryfirvöld hafi tekið vel í beiðni Leiknis og ekki sé líklegt að Leiknismenn spili neins staðar annars staðar en í höllinni í sumar.

„Þetta er auðvitað ekki í okkar höndum heldur bæjarstjórnar að klára þetta mál. Ég hef fulla trú á að þeir klári þetta og er ekkert stressaður. Það er toppfólk sem þar situr.

Þetta er fljótleg aðgerð og tekur innan við viku að skipta um. Fyrsti heimaleikur er í maí þannig að þetta þarf að gerast í apríl – það er bara þannig.“

Magnús segir að vetur konungur hafi gert undirbúningstímabilið aðeins erfiðara. „Þetta er alltaf basl á þessum tíma. Við erum að keppa á Kjarnafæðismótinu á Akureyri og það er oft erfitt að komast í leiki. Þjálfarinn býr á Seyðisfirði og 2-3 á Egilsstöðum og það er ekkert alltaf fært. En það er samt bjart yfir okkur.“

Leiknir hefur fengið Björgvin Stefán Pétursson aftur heim en Magnús segir að þrír útlendingar muni líklegast yfirgefa liðið og unnið sé að því að fylla í þeirra skörð.