Vösk sveit úr reið­hjóla­fé­laginu Tindi gerði fyrsta sér­hannaða fjalla­hjóla­stíginn í Reykja­vík sem vígður var á sunnu­dag. Yfir hundrað manns mættu á opnunina en næsta verk er að gera aðra línu og ferðina upp fjallið betri.

„Brautin vonandi heldur sér í gegnum vætuna í vetur,“ segir Franz Frið­riks­son sem situr í stjórn reið­hjóla­fé­lagsins Tinds en hann var einn af þeim sem tóku til hendinni í hlíðum Úlfars­fells og gerðu fyrstu fjalla­hjóla­brautina innan borgar­markanna.

Hug­myndin að brautinni kom í gegnum Hverfið mitt í fyrra og fékk borgin Tind til að gera brautina sem þykir vel heppnuð. Franz situr í fjalla­hjóla­deild Tinds og skoraðist ekki undan verk­efninu. Þeir fengu einn fjórða af fjallinu til að gera brautina sem er 1,3 kíló­metrar en hæðar­metrarnir eru þó að­eins um hundrað.

Í brautinni eru margir pallar sem henta bæði vönum og ó­vönum, konum og körlum. „Það var mikil gleði og mikil hamingja þegar brautin var opnuð á sunnu­dag. Hún er mjög opin og upp­leiðin er mjög góð sem skiptir tölu­verðu máli. Svo fer það bara eftir hversu öflugur hjól­reiða­maður við­komandi er hvaða línu hann velur sér og hversu margar ferðir við­komandi fer,“ segir Franz.

Enginn starfs­maður verður til að sinna brautinni í vetur en Úlfars­fellið er snjó­létt svæði og vonast Franz eftir því að það þurfi ekki að endur­gera brautina í vor.

„Við smíðuðum hana þannig að hún stendur upp úr landinu og veturinn og vatnið á ekki að skemma hana. Það eru vatns­rásir og dren og alls konar ræsi.

Það verður samt alltaf eitt­hvert vinnu­kvöld í vor þar sem engin braut í náttúrunni er við­halds­frí og þá þarf að klappa henni að­eins eftir veturinn,“ segir hann.

Sjálfur er hann yfir­leitt alltaf úti að leika. Á veturna eru það fjalla­skíði en á sumrin fjalla­hjól­reiðar. Hann segir að þetta sé á­kveðinn lífs­stíll sem sí­fellt fleiri kjósi sér. „Þetta er úti­vera, fegurðin í náttúrunni og sam­veran. Það er ó­trú­lega skemmti­legt að fara niður fjalls­hlíð – um það verður ekki deilt,“ segir hann.

Franz segir að vonandi verði næst kosið um að gera nýja leið niður fellið við hliðina á þeirri sem gerð var í sumar. Hann vonast einnig eftir að fleiri sveitar­fé­lög sjái hag sinn í að gera svona braut.

„Á Ís­landi erum við að stunda svo­kallað „hike and bike“. Þar sem við þurfum að halda á hjólunum upp til að renna okkur niður. En upp­leiðin í þessari braut er góð þó það megi alltaf bæta hana þannig að allir geti staðið þarna uppi. Henda jafn­vel upp ein­hvers konar ferða­máta þannig að allir geti komist. Krakkar og þeir sem eru fatlaðir.“