Vösk sveit úr reiðhjólafélaginu Tindi gerði fyrsta sérhannaða fjallahjólastíginn í Reykjavík sem vígður var á sunnudag. Yfir hundrað manns mættu á opnunina en næsta verk er að gera aðra línu og ferðina upp fjallið betri.
„Brautin vonandi heldur sér í gegnum vætuna í vetur,“ segir Franz Friðriksson sem situr í stjórn reiðhjólafélagsins Tinds en hann var einn af þeim sem tóku til hendinni í hlíðum Úlfarsfells og gerðu fyrstu fjallahjólabrautina innan borgarmarkanna.
Hugmyndin að brautinni kom í gegnum Hverfið mitt í fyrra og fékk borgin Tind til að gera brautina sem þykir vel heppnuð. Franz situr í fjallahjóladeild Tinds og skoraðist ekki undan verkefninu. Þeir fengu einn fjórða af fjallinu til að gera brautina sem er 1,3 kílómetrar en hæðarmetrarnir eru þó aðeins um hundrað.
Í brautinni eru margir pallar sem henta bæði vönum og óvönum, konum og körlum. „Það var mikil gleði og mikil hamingja þegar brautin var opnuð á sunnudag. Hún er mjög opin og uppleiðin er mjög góð sem skiptir töluverðu máli. Svo fer það bara eftir hversu öflugur hjólreiðamaður viðkomandi er hvaða línu hann velur sér og hversu margar ferðir viðkomandi fer,“ segir Franz.

Enginn starfsmaður verður til að sinna brautinni í vetur en Úlfarsfellið er snjólétt svæði og vonast Franz eftir því að það þurfi ekki að endurgera brautina í vor.
„Við smíðuðum hana þannig að hún stendur upp úr landinu og veturinn og vatnið á ekki að skemma hana. Það eru vatnsrásir og dren og alls konar ræsi.
Það verður samt alltaf eitthvert vinnukvöld í vor þar sem engin braut í náttúrunni er viðhaldsfrí og þá þarf að klappa henni aðeins eftir veturinn,“ segir hann.
Sjálfur er hann yfirleitt alltaf úti að leika. Á veturna eru það fjallaskíði en á sumrin fjallahjólreiðar. Hann segir að þetta sé ákveðinn lífsstíll sem sífellt fleiri kjósi sér. „Þetta er útivera, fegurðin í náttúrunni og samveran. Það er ótrúlega skemmtilegt að fara niður fjallshlíð – um það verður ekki deilt,“ segir hann.
Franz segir að vonandi verði næst kosið um að gera nýja leið niður fellið við hliðina á þeirri sem gerð var í sumar. Hann vonast einnig eftir að fleiri sveitarfélög sjái hag sinn í að gera svona braut.
„Á Íslandi erum við að stunda svokallað „hike and bike“. Þar sem við þurfum að halda á hjólunum upp til að renna okkur niður. En uppleiðin í þessari braut er góð þó það megi alltaf bæta hana þannig að allir geti staðið þarna uppi. Henda jafnvel upp einhvers konar ferðamáta þannig að allir geti komist. Krakkar og þeir sem eru fatlaðir.“


