Gunnar Páll Pálsson, stjórnarformaður Golfklúbbsins Brautarholts, ræddi við CNN um hinn glæsilega völl, sem staðsettur er í landi Brautarholts við Grundarhverfi á Kjalarnesi.

Völlurinn liggur yst á hinu eiginlega Kjalarnesi með útsýni til borgarinnar en tignarlegur klettaskagi umlykur hann.

Landið þar sem völlurinn liggur hefur verið í fjölskyldu minni í nokkrar aldir og gengið í erfðir innan fjölskyldunnar.

Þar var áður ræktunarland en frjósemin í jarðveginum hafði farið minnkandi. Af þeim sökum var nauðsynlegt að finna önnur not fyrir það og ákveðið var að byggja golfvöll," segir Gunnar Páll í samtali við CNN.

Upphaflega var gerður níu holu völlur árið 2011 en síðar var bætt við þremur holum en það var arkitektinn Edwin Roald sem hannaði völlinn.

Roald hefur þá sýn að frekar eigi að gera golfvelli með færri holum en að troða 18 holum inn í landslag og landssvæði þar sem ekki er pláss fyrir það.

Þrátt fyrir að vera 12 holu völlur hefur Brautarholt fengið alþjóðlegar viðurkenningar en árið 2020 var hann valinn 62. besti völlur heims á bókunarvefsíðunni Golfscape og talinn á pari við velli á borð við Pebble Beach og St. Andrews. Brautarholt er svo í 40. sæti yfir bestu golfvelli Skandinavíu samkvæmt tímaritinu GolfDigest Magazine

Auk þess að stefna að því að klífa hærra á listanum yfir glæsilegstu velli heims segir Gunnar Páll að stefnan sé að gera Brautarholt að sjálfbærasta golfvelli heims á jörðinni.

„Hér á Íslandi er meira og minna öll okkar orka endurnýtanleg, svo við töldum að það væri góð hugmynd að stefna í þá átt hér að gera völlinn eins sjálfbæran og mögulegt er,“ útskýrir stjórnarformaðurinn.

Öll raforka Íslands kemur frá endurnýtanlegum orkugjöfum. Sem liður í því að nota hreina raforku hefur Brautarholt fest kaup á 30 sjálfvirkum rafmagnssláttuvélum. „Við erum komnir á þann stað að þessar rafmagnssláttuvélar sjá um að slá um það bil 98% af flötunum á vellinum" segir hann.

Úlfar Jónsson, íþróttastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, GKG, fer einnig yfir sviðið í golfi á Íslandi í umfjöllun CNN. Mikil uppbygging hefur átt stað á aðstöðu hjá GKG, en innanhúsaðstaðan hefur verið bætt til muna.

Fyrr á þessu ári var tekið í notkun 1500 fermetra golfhús með 16 golfhermum og tveimur æfingaflötum á svæði GKG.

„Ungir kylfingar eru að verða tæknilega betri og standa framar en áður. Við erum einnig að sjá betur framkvæmda sveiflu hjá þeim.

Við hvetjum auðviðtað kylfinga til þess að nota vellina okkar eins mikið og mögulegt er yfir sumartímann en nú erum við komnir með aðstöðu innandyra einnig þannig að kylfingar geta æft við frábærar aðstæður yfir veturinn einnig," segir Úlfar.

Úlfar Jónsson er íþróttastjóri GKG sem byggt hefur upp frábæra aðstöðu á síðustu árum.
Fréttablaðið/GVA

Haukur Örn Birgisson, fráfarandi formaður Golfsambands Íslands, GSÍ, segir í viðtali við CNN að innviðauppbygging líkt og GKG hefur ráðist í þar sem innanhússaðstaðan hefur verið bætt til muna leiði vonandi til þess að íslenskir kylfingar muni geri sig enn meira gildandi á alþjóðlegum mótaröðum í náinni framtíð.

„Hér áður vorum við með golftímabil á Íslandi þar sem kylfingar gátu æft við almennilegar aðstður í fimm til sex mánuði. Innanhúsaðstaðan gerir það að verkum að íslenskir kylfingar geta æft tæknileg atriði og sveifluna sína allt árið um kring.

Það mun vonandi skila sér í betri árangri í alþjóðlegum mótaröðum innan tíðar," segir Haukur Örn sem bendir á að þrátt fyrir smæð Íslands séu á landinu 65 framúrskarandi golfvellir.

„Á Íslandi er hægt að spila golf í hraunbreiðum, í eldgígum, á bökkum jökulfljóta, þar sem hverir springa upp eins og Geysir rétt hjá vellinum með vatnstorfærum sem eru gerðar úr sjóðandi vatni. Þú kemst ekki nær náttúrunni á meðan þú spilar golf annars staðar í heiminum og nátturan er sú fallegasta í heiminu,“ segir hann.

„Við höfum þann draum að halda hér alþjóðlegt mót einn daginn. Ímyndaðu þér til að mynda að PGA mótaröð væri leikin í miðnætursólinni sem við höfum hérlendis í júní og júlí, það væri frábært,“ segir formaðurinn fráfarandi dreyminn.

„Golfið er afar vaxandi íþrótt á Íslandi en síðustu tvo áratugi hefur iðkendafjöldi þrefaldast í greininni. Síðustu tvö ár hefur svo orðið sprenging í golfi á landsinu en eins og sakir standa eru sex prósent þjóðarinnar meðlimir í golfklúbbi og um 40.000 spila golf reglulega.

Það þýðir að 12% af íbúum landslsins spila golf sem hlýtur að vera heimsmet. Það er svo gaman að segja frá því að kvenkyns kylfingum hefur fjölgað úr 10% í 33% á síðustu árum.

Þeir sem starfa innan golfhreyfingarinnar á Íslandi gætu ekki verið ánægðari og framtíðin er svo sannarlega björt í íslensku golfi," segir þessi ástríðufulli golfáhugamaður.

Haukur Örn Birgisson hefur staðið í stafni hjá GSÍ á miklum uppvaxtarárum golfsins á Íslandi.
Fréttablaðið/Stefán