Í gær tilkynnti franska liðið Alpine að náðst hefðu samningar við ökumanninn unga og efnilega, Oscar Piastri um að hann myndi fylla upp í sætið sem tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso hefur vermt undanfarin ár en sá síðarnefndi er á leið til Aston Martin eftir yfirstandandi tímabil. Piastri myndi því aka við hlið Esteban Ocon á næsta tímabili.

Þessar fréttir vöktu svosem enga undrun. Piastri hefur löngum verið orðaður við sæti í Formúlu 1 og hefur starfað sem vara- og þróunarökumaður Alpine undanfarið. Hlutirnir tóku hins vegar óvænta stefnu nokkrum klukkustundum eftir tilkynningu Alpine um Piastri.

,,Ég mun ekki aka fyrir Alpine"

Um klukkan sex í gærkvöldi birtist yfirlýsing frá Piastri á samfélagsmiðlum þar sem hann kannaðist ekkert við að hafa samið við Alpine um að aka fyrir liðið í Formúlu 1 á næsta ári.

,,Mér hefur borist til eyrna að, án þess að hafa náð samkomulagi, hafi Alpine sent út fréttatilkynningu þess efnis að ég myndi aka fyrir liðið á næsta tímabili. Þetta er ekki rétt. Ég hef ekki skrifað undir samning við Alpine fyrir tímabilið 2023 og mun ekki aka fyrir liðið á næsta tímabili."

Með þessari færslu Piastri varð algjör kúvending á stöðu mála og velta margir því fyrir sér hvernig svona lagað getur átt sér stað.

Orðrómar farnir á kreik

Líklegasta skýringin á þessum farsa er sú að Piastri hafi, á bakvið tjöldin, verið í viðræðum við annað lið og hefur McLaren verið nefnt þar til sögunnar. Vonir bæði liðsins sem og Piastri standi til að hann aki fyrir liðið á næsta tímabili og komi þar inn í stað samlanda síns Daniel Ricciardo.

Alpine telur hins vegar, samkvæmt heimildum Sky Sports að Piastri sé skuldbundinn til að aka fyrir liðið á næsta tímabili en erfitt er að sjá það gerast líkt og staðan er núna.

Piastri var með ákvæði í samningi sínum við Alpine, ákvæði sem liðið hefði geta virkjað til þess að tryggja sér þjónustu ökumannsins á næsta tímabili. Heimildir Sky Sports herma hins vegar enn frekar að umrætt ákvæði hafi runnið út fyrir tveimur dögum síðan og að því hafi Alpine verið of seint að virkja það.

Samningur Ricciardo, sem talið er að McLaren sé að reyna fá Piastri inn fyrir, rennur út eftir næsta tímabil og því myndi liðið þurfa að finna lausn á þeirri stöðu ætli það sér að fá hinn unga Piastri inn.