Roberto Firmino og Trent Alexander-Arnold verða að öllum líkindum reiðubúnir að vera í liði Liverpool þegar það mætir West Ham United í fyrsta leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í hádeginu sunnudaginn 12. ágúst.

Firmino og Alexander-Arnold komu báðir til baka ur fríum sínum eftir þátttöku þeirra á heimsmeistaramótinu fyrr í sumar í þessari viku. Þeir munu báðir mögulega koma við sögu í vináttuleik liðsins gegn Napoli á laugardaginn kemur. 

„Það er gott að vera búinn að endurheimta þá og Firmino sem spilaði meira í Rússlandi virðist vera í góðu formi. Við sjáum til hvort að hann verði með í leiknum gegn Napoli, það er líklegra en ekki, og við sjáum til hversu lengi hann mun spila," sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við Skysports. 

„Þegar kemur að leiknum gegn West Ham United hefur hann æft í tvær vikur efir þriggja vikna frí. Það ætti að duga til þess að vera kominn í nægilega gott form til þess að spila deildarleik. Við munum taka þetta skref fyrir skref og taka stöðuna þegar nær dregur að leiknum," sagði Klopp enn fremur.