„Þetta er ofboðslega sérstök staða. Í fyrra var þetta að mörgu leyti erfiðara enda vissi maður minna, en í ár er maður undir það búinn að þeir gætu frestað aftur, vitandi að kórónaveiran er enn í útbreiðslu, “ segir þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir, aðspurð út í orðróm sem hefur heyrst undanfarna daga um að það gæti þurft að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó annað árið í röð, eða aflýsa þeim. Guðlaug Edda er ein af 27 manneskjum á Ólympíulista ÍSÍ fyrir leikana í Tókýó, yfir þá aðila sem stefna að þátttöku og vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikunum.

„Auðvitað er erfitt að heyra þessar fréttir, að þessu verði mögulega frestað eða aflýst en þetta er ekki í mínum höndum. Það er í raun ekkert annað sem ég get gert en að halda áfram að æfa og vona að þetta fari allt saman vel. Í fyrra var þetta meira sjokk, maður átti í raun aldrei von á því að Ólympíuleikunum yrði frestað eða aflýst. Ég og þjálfarinn minn vorum sammála um að einbeita okkur bara að undirbúningnum og æfa eins og leikarnir færu fram, en á sama tíma sætta okkur við að þetta gæti farið á báða vegu. Ef ég væri að velta mér of mikið upp úr þessu í dag kemur það niður á æfingunum sem er ekki þess virði, en auðvitað yrði það sárt ef leikunum yrði frestað. “

Guðlaug Edda er rétt við mörkin að komast inn á Ólympíuleikana og er því spennt að geta keppt á ný í mótum sem gefa stig inn á styrkleikalistann í aðdraganda leikanna.

Guðlaug Edda í hlaupi á Akureyri síðasta sumar. Mynd/Birkir Baldvinsson

„Við erum að bíða eftir svörum frá Alþjóða þríþrautarsambandinu, ITU, um hvaða mót telja inn á Ólympíulistann. Fyrsta mótið var á dagskrá í Japan í mars en það er erfitt að sjá að það fari fram þegar útgöngubann ríkir í landinu. Þríþrautarsambandið ætlaði að gefa út dagskrá í janúar og er búið með drög að henni sem á þó eftir að staðfesta. Það getur tekið á þolinmæðina að bíða svona. Ég er rétt við línuna til að komast inn á leikana og þarf að eiga eina til tvær góðar keppnir til þess og er þess vegna mjög spennt að sjá hvaða keppnir standa til boða.“

Margir spenntir að byrja að keppa

Í þríþraut þurfa keppendur að synda, hjóla og hlaupa, en vegalengdin er mislöng. Á Ólympíuleikunum er hlaupið tíu kílómetrar, fjörutíu kílómetra hjólreiðar og 1,5 kílómetri syntur.

Sundæfing í bílskúrnum
fréttablaðið/ernir

„Þær keppnir sem fóru fram á síðasta ári voru ekki taldar inn á styrkleikalistana og höfðu því engin áhrif á Ólympíulistann. Ég finn alveg að það eru margir orðnir spenntir að byrja að keppa aftur með annað augað á Ólympíuleikunum, enda fjögur ár af undirbúningi að baki og væntingar. Þegar þetta fer að telja aftur inn á stigalistann verður fólk grimmara í leit að fleiri stigum og gefur sig allt í verkefnin.“

Guðlaug Edda er þessa dagana við æfingar í háfjallaaðstæðum í Bandaríkjunum, áður en hún fer að æfa rétt yfir sjávarmáli í aðdraganda tímabilsins.

„Ég er þessa dagana að æfa í æfingahóp í Bandaríkjunum. Við erum núna í Colorado í háfjallaæfingabúðum til að byggja upp góðan grunn. Í næsta mánuði förum við síðan yfir til Arizona og æfum við sjávarmál á meiri hraða í aðdraganda keppnistímabilsins sem á að hefjast um miðjan mars. Undirbúningurinn hófst í nóvember en það fór upp um eitt skref við að fara út og verður ansi krefjandi næstu sex til sjö vikurnar. Ég finn hvernig þetta kemur manni nær markmiðum sínum og ég sé framfarir í hverri viku hérna úti,“ segir Guðlaug sem keypti sér uppblásna sundlaug til að æfa í bílskúr foreldra sinna á Íslandi í upphafi heimsfaraldursins.

„Já, það var ótrúlegt,“ segir afrekskonan hlæjandi, aðspurð hvort að hún hafi kvatt sundlaugina fagnandi. „Maður gerir auðvitað bara það sem þarf til að komast á æfingarnar hverju sinni. Hér úti er mun betri æfingaaðstaða og ég er að vinna með þjálfaranum mínum og heimsklassa íþróttafólki, sem gefur manni ótrúlega mikið. Ég lærði það hvað það hjálpar að vera að æfa með öllu þessu fólki og þjálfaranum mínum, þó að það hafi verið talsvert vesen að komast út. Það var því mikill léttir þegar það var í höfn og mér tókst að koma til móts við hópinn.“