Fiorentina tilkynnti í dag að ákvörðun hefði verið tekin um að enginn leikmaður fengi að nota treyjunúmer Davide Astori, fyrrum fyrirliða liðsins, sem féll óvænt frá um helgina aðeins 31 árs gamall.

Astori kom ásamt liðsfélögum sínum til Udinese á laugardaginn þar sem leikur gegn heimamönnum var á dagskrá daginn eftir. Astori fékk hjartaáfall í svefni en það kom í ljós um morguninn þegar brotist var inn í hótelherbergi hans þegar hann fannst hvergi og svaraði ekki skilaboðum.

Var Astori fyrirliði Fiorentina á fjórða ári sínu hjá félaginu en hann átti 14 leiki að baki fyrir ítalska landsliðið. Lék hann einnig með Cagliari og Roma en hann kom upp úr unglingastarfi AC Milan.

Tilkynntu bæði Cagliari og Fiorentina í dag að ákvörðun hefði verið tekin um að leggja númerið í helgan stein sem minnisvarða um Astori.