Valur tilkynnti í dag að Finnur Freyr Stefánsson hefði verið ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins í körfubolta og á sama tíma að Darri Freyr Atlason væri hættur með kvennaliðið.

Þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu.

Finnur tekur við Val eftir að hafa þjálfað lið Horsens í Danmörku á nýafstöðnu tímabili. Finnur þekkir til á Hlíðarenda eftir að hafa verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Val frá 2018-19.

Þar áður stýrði Finnur uppeldisfélagi sínu, KR, til sigurs á Íslandsmótinu fimm ár í röð. Hann hefur einnig verið í þjálfarateymi karlalandsliðsins.

Darri fylgist með af hliðarlínunni
fréttablaðið/ernir

Á sama tíma var tilkynnt að Ólafur Jónas Sigurðsson myndi taka við kvennaliði félagsins af Darra Frey Atlasyni og verður Helena Sverrisdóttir honum til aðstoðar.

Ólafur hefur undanfarin ár þjálfað ÍR ásamt því að sinna hlutverki aðstoðarþjálfara hjá U20 ára landsliði kvenna.

Darri stýrði Valsliðinu til sigurs í öllum keppnum í fyrra. Á þessu tímabili þurftu Valskonur að horfa á eftir bikarmeistaratitlinum en endurheimtu deildarmeistaratitilinn áður en tímabilinu var aflýst.